Cunha færist nær Man Utd - Manchester liðin vilja Costa - Aston Villa íhugar að selja Ollie Watkins
   þri 22. apríl 2025 18:26
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Óskar Hrafn: Það var enginn að ýta honum út
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KR barst á dögunum tilboð í spænska miðjumanninn Vicente Valor sem ákveðið var að samþykkja. Í dag var svo tilkynt að leikmaðurinn hefði gert þriggja ára samning við ÍBV.

Valor þekkir vel til í Eyjum því hann var lykilmaður í liðinu sem vann Lengjudeildina í fyrra, var valinn í lið ársins, en í kjölfarið samdi hann til þriggja ára við KR. Hann er nú kominn aftur til Eyja.

„Eftir að tilboðið barst ræddum við við Vicente og hann tók svo þessa ákvörðun," segir Óskar Hrafn Þorvaldsson, yfirmaður fótboltamála hjá KR, við Fótbolta.net í dag.

„Það var mat okkar að miðað við tilboðið sem kom þá vorum við tilbúnir að hleypa honum ef hans vilji væri að fara. Það var enginn að ýta honum út, alls ekki þannig."

Valor var í byrjunarliði KR gegn KA í 1. umferð Bestu deildarinnar og kom inn á sem varamaður gegn Val í 2. umferð. Hann var svo í byrjunarliðinu í sigrinum stóra gegn KÁ í Mjólkurbikarnum á laugardag.

Óskar segir að KR ætli sér ekki að fara á markaðinn til að fá inn mann í staðinn fyrir Valor.

„Við erum með flottan hóp og ef svo ber undir þá munu ungir menn fá dýrmæta reynslu."

Næsti leikur KR er útileikur gegn FH á morgun og ÍBV tekur á fimmtudag á móti Fram sem gæti orðið fyrsti leikur Valor með ÍBV eftir endurkomuna.
Athugasemdir
banner
banner