Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mán 22. maí 2023 15:33
Elvar Geir Magnússon
Felix kemur með skot á FH - „Segja ekkert við manninn sem reyndi að slasa andstæðing“
Kjartan Henry Finnbogason.
Kjartan Henry Finnbogason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Aganefnd KSÍ dæmdi í lok síðustu viku Kjartan Henry Finnbogason, sóknarmann FH, í eins leiks bann fyrir að gefa Nikolaj Hansen, leikmanni Víkings, olnbogaskot.

Dómarar leiksins sáu ekki atvikið en Kjartan var í eldlínunni í leiknum og hefði að mati sparkspekinga átt að fá tvö rauð spjöld í fyrri hálfleik. Hinu atvikinu var ekki vísað til aganefndar en Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, vísaði olnbogaskotinu þangað.

Kjartan tekur út bann í kvöld þegar FH heimsækir ÍBV á Hásteinsvöll.

FH sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem félagið lýsir yfir óánægju með að Klara hafi tekið afstöðu í málinu og telja að umræða á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlun hafi haft áhrif á bæði ákvörðun Klöru og nefndarinnar.

Fjölmiðlamaðurinn og fótboltaáhugamaðurinn Felix Bergsson hefur blandað sér í umræðuna á Twitter og skýtur á FH eftir yfirlýsinguna

„Þannig að knattspyrnudeild FH ætlar að ráðast á Klöru og KSÍ en segir ekkert við leikmanninn sem reyndi að slasa andstæðing með skítabrögðum? Kúl," skrifaði Felix.

Margir telja að Kjartan hafi sloppið vel með að fá eins leiks bann en einhverjir stuðningsmenn FH eru því algjörlega ósammála. Þar á meðal er fjölmiðlamaðurinn Orri Freyr Rúnarsson sem skrifaði á Twitter: „Galin ákvörðun að refsa KHF fyrir smá stroku í baráttu tveggja leikmanna."




Athugasemdir
banner