Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
banner
   sun 21. maí 2023 22:21
Brynjar Ingi Erluson
FH gagnrýnir vinnubrögð framkvæmdastjóra KSÍ - „Hún getur ekki sest í dómarasæti“
Kjartan Henry Finnbogason
Kjartan Henry Finnbogason
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ
Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
FH-ingar hafa sent frá sér yfirlýsingu vegna úrskurðar aga- og úrskuðarnefndar KSÍ í máli Kjartans Henrys Finnbogasonar en hann mun taka út eins leiks bann fyrir atvik sem áttu sér stað í leik liðsins við Víking í síðustu umferð.

Kjartan Henry sparkaði átt að Birni Snæ Ingasyni, leikmanni Víkings, í leiknum, en það er ekki atvikið sem var til skoðunar hjá nefndinni, heldur var það meint olnbogaskot að Nikolaj Hansen, framherja Víkings.

Hansen steinlá eftir það atvik en dómarar leiksins sáu ekki atvikið en Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, sendi málið á borð aga- og úrskurðarnefndar.

KJartan var dæmdur í eins leiks bann og verður hann því ekki með gegn ÍBV á morgun. FH-ingar eru ósáttir við ýmislegt þegar það kemur að þessum úrskurði og þá helst að Klara hafi tekið afstöðu í málinu og telja FH-ingar þá að umræða á samfélagsmiðlum og fjölmiðlaumfjöllun hafi áhrif bæði ákvörðun Klöru og nefndarinnar.

Yfirlýsing FH í heild sinni

Á fundi Aga- og úrskurðarnefndar KSÍ á föstudag var Kjartan Henry Finnbogason úrskurðaður í eins leiks bann fyrir „alvarlega grófan og hættulegan leik“ eins og segir í úrskurðinum. Atvikið sem um ræðir er barátta Kjartans Henrys og Nicolaj Hansen, leikmanns Víkings, inni í vítateig FH-inga í leik liðanna síðastliðinn föstudag.

Dómarar leiksins sáu ekki atvikið en framkvæmdastjóri KSÍ, Klara Bjartmarz, nýtti sér ákvæði í lögum KSÍ sem heimilar framkvæmdastjóra KSÍ að skjóta málum til Aga- og úrskurðarnefndar.

Um það verður ekki deilt að þessi heimild er til staðar. Hins vegar er framganga framkvæmdastjórans í greinargerð sinni til Aga- og úrskurðarnefndar ámælisverð. Þannig fullyrðir framkvæmdastjórinn tvívegis í greinargerð sinni að Kjartan hafi sýnt óíþróttamannslegan og hættulegan leik. Það er að mati FH algjörlega ótækt og í ósamræmi við málskotsheimild framkvæmdastjórans að hún taki afstöðu í málinu með svona afgerandi hætti. Framkvæmdastjórinn hefur vissulega heimild til að vísa málinu til nefndarinnar en hún getur ekki sest í dómarasæti eða tekið að sér málflutning fyrir aðra hlið málsins líkt og hún gerir í greinargerð sinni.

Í úrskurði Aga- og úrskurðarnefndar kemur fram að nefndin tekur undir þau sjónarmið FH að „ókleift sé að fullyrða að leikmaður FH hafi af ásetning gerst brotlegur gagnvart leikmanni Víkings R.“ Með öðrum orðum, þá telur nefndin ómögulegt að dæma um hvort að um viljaverk hafi verið að ræa í umræddu tilviki af hálfu Kjartans. Í huga FH, og líklega flestra annarra, þá ættu óviljaverk leikmanna varla að geta flokkast undir óíþróttamannslega hegðun eða gróf og alvarleg brot beri að refsa sérstaklega fyrir með leikbanni á síðari stigum. Niðurstaða nefndarinnar var hins vegar sú að þrátt fyrir að ekki teldist staðfest að brotið hafi verið framið af ásetningi, þá teldist það engu að síður vera „alvarlegt agabrot“ og að Kjartan hafi sýnt af sér „alvarlega grófan og hættulegan leik.“ Að mati FH heldur slíkur rökstuðningur eða málflutningur ekki vatni og býður augljóslega upp á að það verði nóg að gera hjá framkvæmdastjóra KSÍ og Aga- og úrskurðarnefndinni í sumar að dæma leikmenn í leikbönn fyrir möguleg óviljaverk.

FH telur ljóst að megin ástæða þess að nefndin komst að þessari mótsagnakenndu niðurstöðu var málflutningur og fullyrðingar framkvæmdastjórans í greinargerð sinni til nefndarinnar. Þá má einnig álykta að mikil og einhliða fjölmiðlaumfjöllun um atvikið, og ekki síður um þann tiltekna leikmann sem var til skoðunar, hafi haft áhrif á bæði greinargerð framkvæmdastjórans og niðurstöðu nefndarinnar. Sé það rétt ályktað þá er það grafalvarlegt mál. Framkvæmdastjóri KSÍ og meðlimir Aga- og úrskurðarnefndar verða að sýna þann styrk og sjálfstæði að geta tekið hlutlæga afstöðu til mála af þessu tagi, á grundvelli gagna og sjónarmiða málsaðila, en ekki láta utanaðkomandi atriði hafa áhrif á niðurstöður.

FH telur að ef litið yrði hlutlægt á umrætt atvik, óháð fjölmiðlaumfjöllun og persónum og leikendum, þá teldist brotið ekki verðskulda rautt spjald, og hvað þá leikbann á síðari stigum. Í atvikinu voru tveir leikmenn að kljást án bolta í vítateig og keppast um að vinna sér stöðu vegna væntanlegrar fyrirgjafar. Slík stöðubarátta á sér stað ótal sinnum í hverjum leik. Í þetta skiptið vildi svo óheppilega til að við það að reyna að hindra för leikmanns Víkings þá rak leikmaður FH handlegg sinn í andlit leikmanns Víkings sem fékk við það blóðnasir. Í því fólst vissulega brot, þó óviljandi væri, sem rétt hefði verið að refsa fyrir með vítaspyrnu og gulu spjaldi. Ásetningur um að slá leikmann Víkings í andlitið var hins vegar ekki til staðar og allt tal um olnbogaskot er einfaldlega ekki í samræmi við myndbrot af atvikinu.

Knattspyrnusambandið þarf alvarlega að íhuga stefnu sína í þessum málaflokki. Fyrir ekki svo löngu síðan nýtti framkvæmdastjórinn sér þetta sama ákvæði í lögum KSÍ vegna atviks í leik Fram og ÍBV. Aga- og úrskurðarnefndin ákvað í því tilviki að aðhafast ekkert þrátt fyrir að myndbandsupptökur virðast sýna að þar hafi verið um óíþróttamannslegan og hættulegan leik að ræða.

KSÍ þarf að hætta að velta sér upp úr því hver umræðan er á samfélagsmiðlum og þora að taka ákvarðanir byggðar á staðreyndum og sýna festu í þessum málum líkt og öðrum. Með þessu fordæmi sem þeir sýna með þessum úrskurði þá má sambandið búast við því að það verði nóg að gera hjá framkvæmdastjóranum í sumar og við vonum að hún beri gæfu til að taka á þessum málum af meiri fagmennsku en hún hefur gert í þeim tveimur málum sem hafa snert Fimleikafélagið á þessu tímabili.



Athugasemdir
banner
banner
banner
banner