fim 22. júlí 2021 11:10
Innkastið
„Orðnir það slakir að Hilmar getur ekki búið til neitt fyrir þá"
Hilmar Árni Halldórsson, leikmaður Stjörnunnar.
Hilmar Árni Halldórsson, leikmaður Stjörnunnar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stjarnan tapaði sannfærandi í Breiðholti.
Stjarnan tapaði sannfærandi í Breiðholti.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
„Frammistaða Stjörnunnar var sjokkerandi," segir Ingólfur Sigurðsson í Innkastinu en þar er fjallað um slæmt gengi Stjörnunnar sem tapaði sannfærandi 2-0 fyrir Leikni á mánudaginn.

Stjörnuliðið er fallið úr leik í bikar og Evrópu og situr nú þremur stigum fyrir ofan fallsæti.

„Þeir voru gjörsamlega með allt til alls en hefur algjörlega mistekist að endurnýja liðið sitt. Loftið hefur verið að tæmast úr blöðrunni saman og þeir eru langt frá því að vera nægilega góðir. Þetta er ekki gott lið lengur, þetta er lélegt eins og staðan er og mikið verk framundan hjá Stjörnunni. Það þarf fjölmargt að gera, bæta og breyta til að ná fyrri styrk," segir Ingólfur og Tómas Þór Þórðarson tekur undir að það hafi stefnt í þetta undanfarin ár.

„Þetta hefur verið á leiðinni hjá Stjörnunni en fallið af bjarginu er töluvert meira en þeir bjuggust við. Þeir eiga að vera búnir að fá á sig fleiri mörk en eru með einn af þremur bestu markvörðum deildarinnar. Þar stoppar jákvæðnin. Haraldur Björnsson er geggjaður en hinir ekki," segir Tómas.

„Þeir eru aftur komnir í eitthvað útlendingalottó og eru orðnir það slakir að Hilmar Árni (Halldórsson) getur ekki búið til neitt fyrir þá. Einn af bestu leikmönnum síðasta áratugar."

Hilmar Árni Halldórsson hefur verið langt frá sínu besta en hann hefur ekki eins góðan stuðning í kringum sig og hann hefur haft.

„Manni var brugðið að sjá hversu illa hann Hilmar getur litið út. Við vitum alveg hvaða hæfileika hann hefur og hvað hann getur gert en hann leit rosalega illa út. Þetta er leikmaður sem þarf menn fyrir aftan sig á miðjunni, eins og Alex (Þór Hauksson) sem fór út og er saknað. Hilmar þarf sterkan kjarna með sér til að blómstra en hann er ekki til staðar," segir Ingólfur og Tómas bætir við:

„Þegar maður tekur frammistöðuna stöðu fyrir stöðu og stigasöfnunina þá eru báðir nýliðarnir, Leiknir og Keflavík, bara betri en Stjarnan. Nú eru þeir komnir að einverjum þolmörkum. Þessi fína stigasöfnun um daginn gaf þeim einhverja von en nú er bara verið að kýla þá aftur í magann."

Hægt er að hlusta á Innkastið í spilaranum hér að neðan eða í gegnum hlaðvarpsforrit.
Innkastið - Raggi lokar hringnum og Stjörnuhrap í Breiðholti
Athugasemdir
banner
banner