Man Utd horfir til markvarðarins Martínez - Díaz vill fara frá Liverpool til Bayern
   þri 22. júlí 2025 15:36
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Læknirinn ánægður með bata Vuk - „Það stendur tæpt"
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Vuk Oskar Dimitrijevic er þessa dagana að jafna sig á því að hafa fengið stóran skurð á hælinn í leik Fram og Aftureldingar í síðustu viku. Saumuð voru sjö spor og batinn er góður.

Vuk er markahæsti leikmaður Fram á tímabilinu, hefur skorað átta mörk í 15 leikjum. Rúnar Kristinsson, þjálfari Fram, ræddi við Fótbolta.net.

„Þetta verður skoðað aftur á föstudaginn, þá hugsanlega getur hann farið að skokka. Ef staðan er góð verða saumarnir teknir annað hvort föstudag eða laugardag. Það stendur tæpt hvort hann sé klár í að spila eða ekki gegn Víkingi, það fer eftir því hvernig honum gengur að hreyfa sig á föstudaginn. Hann er bara í ræktinni fram að því, verður að leyfa þessu að gróa og staðan svo skoðuð á föstudag," segir Rúnar.

Fram situr í 4. sæti Bestu deildarinnar og næsti leikur fer fram á sunnudag þegar Víkingur kemur í heimsókn á Lambhagavöllinn.

Rúnar er ekki stressaður yfir því að Vuk missi mögulega af fleiri leikjum. „Eftir Víkingsleikinn er ekki leikur fyrr en á miðvikudag eftir Verslunarmannahelgi, langur tími milli leikja og ég hef ekki áhyggjur af því að þetta verði meira en mögulega þessi eini leikur."

„Læknirinn kíkti á þetta í gær, þetta grær mjög vel og læknirinn var ánægður með þetta,"
segir Rúnar.
Athugasemdir
banner