Víkingur R. vann neðri keppnina

Í heildina voru 41 lið send frá Íslandi til að taka þátt í Gothia Cup í Gautaborg og voru það stelpurnar í 4. flokki Breiðabliks sem komust lengst íslensku liðanna.
Blikar sendu níu lið til Svíþjóðar og áttu þeir því flesta fulltrúa Íslendinga á mótinu. Fram sendi sjö lið til leiks en svo voru einnig keppendur úr röðum annarra félaga.
FH, Fylkir, HK, KA, KF/Dalvík, Keflavík, Stjarnan, Víkingur R. og Völsungur sendu öll lið til leiks í ýmsum aldursflokkum.
Blikar sendu tvö lið til leiks í 4. flokki kvenna og voru Fram, HK og Víkingur R. einnig með lið í þeim flokki, U14 kvennaflokkinum. Fram var með eitt lið, HK tvö og Víkingur þrjú.
Komust í úrslit
Breiðablik 1 gerði sér lítið fyrir og komst alla leið í úrslitaleik aðalkeppninnar sem er svakalegt afrek. Þar töpuðu Blikastelpur þó 6-1 gegn Panthera FC frá Norður-London.
Þær sigruðu gegn Kjelsås, NJ14, Stureby, San Francisco Aftershocks, Hanbury Rovers, Stångebro United og Umeå á leið sinni í úrslitaleikinn. Allir sigrarnir voru nokkuð sannfærandi nema gegn Hanbury í 16-liða úrslitum, þar sem Blikar þurftu vítakeppni til að bera sigur úr býtum. Sóley María Jóhannsdóttir gerði vel að verja fjórðu vítaspyrnu Hanbury.
Bára Björk Jóelsdóttir var markahæst í liði Blika með tíu mörk skoruð í átta leikjum. Þar af komu þrjú mörk í fyrsta leik mótsins, 8-0 sigri gegn Kjelsås frá Noregi.
Þegar gengi Panthera FC er skoðað sést að liðið endaði mótið með 35 mörk í plús. Liðið sigraði þó naumlega gegn Boo FF og Northumberland County Schools í útsláttarkeppninni, en allir aðrir sigrar voru þægilegir. Meðal annars 6-1 sigur í úrslitaleiknum.
B-lið Breiðabliks komst einnig upp úr sínum riðli en tapaði fyrir Marin FC frá Bandaríkjunum í 32-liða úrslitum. Marin FC komst alla leið í 8-liða úrslit en tapaði þar gegn Panthera FC, sem valtaði svo yfir A-lið Breiðabliks í úrslitaleiknum.
HK 1 komst upp úr riðli þrátt fyrir 3-0 tap gegn Panthera FC sem vann alla leiki sína á mótinu. Stelpurnar í HK duttu út í 32-liða úrslitum þegar þær töpuðu fyrir Hanbury Rovers, liði sem Blikar slógu síðar út eftir vítaspyrnukeppni.
Unnu 'neðri' keppnina
Liðin sem ekki komust upp úr riðlum sínum mættu til leiks í 'neðri' útsláttarkeppni mótsins. Öll þrjú lið Víkings enduðu í neðri keppninni en Víkingur 1 stóð uppi sem sigurvegari í eftir að hafa meðal annars slegið Fram og Víking 2 úr leik.
Víkingsstelpur töpuðu gegn sænsku liðunum Enskede og Bankeryd í riðlakeppninni en voru svo óstöðvandi í neðri keppninni þar sem þær fengu ekki eitt einasta mark á sig. Þær enduðu með 11:0 í markatölu í útsláttarkeppninni og sigruðu sænska liðið Rönninge Salem í úrslitaleiknum. Þar gerði Heiðdís Eva Bárðardóttir eina mark leiksins á 19. mínútu.
Víkingur 2 tapaði öllum leikjum sínum á mótinu stórt og fór heim með 0-21 í markatölu. Svipaða sögu er að segja af Víkingi 3 sem endaði með 4-20 í markatölu.
HK 2 tapaði öllum leikjunum nema einum og duttu stelpurnar út þegar þær mættu A-liði Fram í 32-liða úrslitum.
Fram lagði bæði HK 2 og Hammarby að velli í útsláttarkeppninni en tapaði svo fyrir Víkingi 1 í 8-liða úrslitum.
Ef skoðað er aðra aldursflokka hjá stelpunum þá voru íslensk lið sem tóku þátt í U13 flokki og U16 flokki. Þar náðu Völsungsstelpur lengst í U16 flokki en þær voru slegnar út af norska liðinu Skeid/Grüner/Sagene í 32-liða úrslitum.
Athugasemdir