Man Utd horfir til markvarðarins Martínez - Díaz vill fara frá Liverpool til Bayern
   þri 22. júlí 2025 19:03
Ívan Guðjón Baldursson
Viss um að Ferguson verði mikilvægur fyrir Brighton
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Fabian Hürzeler þjálfari Brighton segir að Evan Ferguson geti enn náð árangri hjá félaginu þrátt fyrir að vera að skipta yfir til Roma á lánssamningi.

Roma greiðir 3 milljónir evra fyrir lánið og er með ákvæði til að kaupa leikmaninn fyrir 37 milljónir til viðbótar.

Það voru margir Rómverjar mættir á flugvöllinn til að taka á móti Ferguson þegar hann lenti í höfuðborginni til að gangast undir læknisskoðun. Þeir eru gríðarlega spenntir fyrir þessum nýja framherja. Hann mun berjast við Artem Dovbyk um sæti í fremstu víglínu.

Ferguson er aðeins 20 ára gamall en skein skært þegar hann tók sínu fyrstu skref með Brighton. Hann skoraði 10 mörk í 25 leikjum á sinni fyrstu heilu leiktíð með aðalliðinu þegar hann var átján ára gamall og setti svo 6 mörk í 36 leikjum á næstu leiktíð, en þá voru meiðslavandræði byrjuð að setja strik í reikninginn.

Meiðslavandræðin snarversnuðu á síðustu leiktíð og vonast Ferguson til að vera kominn yfir þennan erfiða kafla ferilsins. Hjá Roma fær hann nýtt tækifæri til að sanna sig.

„Það er mikilvægt fyrir okkur að leikmenn séu í andrúmslofti þar sem þeir fá tækifæri til að þróa sinn leik. Við tókum ákvörðun um að þróun Ferguson væri best haldið áfram í Róm. Þetta er gæðamikill leikmaður sem getur ennþá gert frábæra hluti fyrir Brighton í framtíðinni. Ég er viss um að hann muni einn daginn snúa aftur og verða mikilvægur leikmaður fyrir okkur," segir Hürzeler.

Ferguson lék á láni hjá West Ham á seinni hluta síðustu leiktíðar en tókst ekki að skora í átta leikjum undir stjórn Graham Potter.
Athugasemdir