Man Utd horfir til markvarðarins Martínez - Díaz vill fara frá Liverpool til Bayern
   þri 22. júlí 2025 14:35
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Ég tek ábyrgð en ég á ekki að vera sá eini sem gerir það"
Kvenaboltinn
Perry Mclachlan er hættur sem þjálfari Aftureldingar.
Perry Mclachlan er hættur sem þjálfari Aftureldingar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fyrir leik hjá Aftureldingu síðasta sumar.
Fyrir leik hjá Aftureldingu síðasta sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Perry var á sínu öðru tímabili með Aftureldingu.
Perry var á sínu öðru tímabili með Aftureldingu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Perry Mclachlan hætti í gær sem þjálfari kvennaliðs Aftureldingar. Það hefur mikið gengið á í kringum kvennaliðið í Mosfellsbænum og Perry segir við Fótbolta.net að á endanum hafi sér fundist vera komið nóg.

Afturelding er á botni Lengjudeildarinnar með aðeins þrjú stig eftir ellefu leiki. Liðið hefur skorað sex mörk og fengið á sig 35 talsins.

„Ég vil byrja á því að þakka leikmönnunum og þjálfarateyminu fyrir þá miklu vinnu og skuldbindingu sem þau hafa lagt á sig síðustu árin," segir Perry við Fótbolta.net.

„Þetta var ákvörðun sem ég tók og bara ég," segir hann.

„Ég gæti farið í smáatriðin um síðustu 10 mánuði um mitt mat á því hvernig félagið ákvað að vinna í kringum kvennaliðið. Í stuttu máli er fótboltinn, og kvennaboltinn, kominn of langt til þess að þetta sé í lagi."

Fannst áhyggjunum ekki vel tekið
Veturinn var erfiður fyrir Aftureldingu. Liðinu var spáð efsta sæti í Lengjudeildinni fyrir síðasta tímabili en fyrir yfirstandandi tímabil var liðinu spáð neðsta sæti. Það segir kannski sitt. Í vetur var ekki stjórn í kringum kvennaliðið lengi vel og var liðið ekki á góðum stað komandi inn í mótið.

Fyrir tímabilið fór Perry í viðtal á Fótbolta.net þar sem hann sagði liðið hafa lent á einmanalegum stað frá september til mars. Það fékkst lítill stuðningur til að styrkja liðið og gengið hefur ekki verið gott í sumar. Það er útlit fyrir það að Afturelding spili í 2. deild næsta sumar nema eitthvað mikið gerist.

„Bæði ég og leikmennirnir funduðum með félaginu í janúar og febrúar til að láta vita að án þess að fá stuðning þá myndum við lenda í fallbaráttu. Mér fannst áhyggjum okkar ekki vel tekið," segir Perry.

„Við fundum tvo leikmenn sem hefðu verið lykilmenn í desember síðastliðnum, markvörð og sóknarmann. Við náðum samkomulagi við þessa leikmenn en gátum ekki tekið það lengra. Það eru ákveðnir hlutir sem þjálfari getur ekki klárað."

„Hlutirnir bötnuðu með nýrri stjórn sem kom inn í dag, en þau eru ný í þessu og þurftu meiri leiðsögn frá félaginu. Skaðinn var þegar skeður og það kemur sá tímapunktur þar sem nóg er nóg, og því miður er það núna."

Ég tek ábyrgð
Perry segist að lokum ekki saklaus í þessu öllu saman. Hann taki ábyrgð sem þjálfari liðsins.

„Ég segi ekki að ég eigi enga sök sem þjálfari liðsins. Það er treyst á mig að ná í úrslit og þau úrslit hafa ekki komið. Ég myndi setja þetta allt á mig ef ég hefði ætlað mér að byggja hópinn svona upp," segir Perry.

„Hversu margir þjálfarar vilja byggja upp hóp án þess að hafa markaskorara og aðalmarkvörð? Það eru tvær lykilstöður í hverju fótboltaliði."

„Ég tek ábyrgð en ég á ekki að vera sá eini sem gerir það," sagði Perry að lokum. Perry kom fyrst hingað til lands árið 2019 og var þjálfari Þórs/KA í Bestu deildinni 2022. Hann hélt síðan í KR ári síðar áður en hann tók við Aftureldingu.

Næsti leikur Aftureldingar er gegn Keflavík á fimmtudaginn.
Athugasemdir
banner
banner