sun 22. nóvember 2020 12:46
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Arnar: Skil ákvörðun Mikaels en er alls ekki sammála að hún hafi verið sú besta
Mikael Neville Anderson
Mikael Neville Anderson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Þór Viðarsson
Arnar Þór Viðarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Athygli vakti þegar hóparnir, fyrir verkefni A-landsliðsins og U21 árs landsliðsins í þessum mánuði, voru tilkynntir að Mikael Neville Anderson var í hvorugum hópnum.

Seinna sama dag kom fram að Mikael hefði ekki gefið kost á sér í U21 hópinn. Ástæðan var sú að Mikael ætlaði að spila bikarleik með FC Midtjylland, félagsliði sínu.

Arnar Þór Viðarsson, þjálfari U21 árs landsliðsins, ræddi þessi mál við þá Elvar Geir Magnússon og Tómas Þór Þórðarson í útvarpsþættinum Fótbolti.net í gær. Hægt er að hlusta á þáttinn neðst í fréttinni.

„Sagan er mjög einföld. Samstarfið milli Erik [Hamren], Freys [Alexanderssonar] og mín og Eiðs Smára [Guðjohnsen] hefur verið mjög gott, sérstaklega undanfarið ár þegar sumir strákarnir úr U21 árs landsliðinu hafa nálgast A-liðið og þeir valdir í þann hóp. Við höfum alltaf rætt mikið og vel saman fyrir hvern og einn glugga. A-liðið er alltaf í forgangi en bæði Erik og Freyr hafa verið mjög opnir með það að skila leikmönnum aftur í U21 ef þeir ætla ekki að nota þá," sagði Arnar.

„Mikael var dæmi um það núna í nóvember eins og átti að vera með Arnór Sigurðsson og Jón Dag [Þorsteinsson] í október. Jón og Arnór áttu að spila með okkur gegn Ítalíu (í leik sem var svo frestað) og eftir þann leik fóru þeir upp í A-liðið. Mikael átti að vera í U21 á móti Ítalíu og svo ætluðum við að sjá til hverjir myndu fara til Írlands og hverjir og þá hvenær menn myndu fara til móts við A-liðið."

„Erik tilkynnti Mikael þetta og hann taldi mikilvægara fyrir sig að spila bikarleik með sínu liði og það er ekkert vandamál. Við höfum ekki staðið í vegi fyrir neinum leikmanni, við höfum reynt að vinna með félögunum. Kolbeinn Þórðarson átti að spila með Lommel í september og við slepptum honum í þann leik og hann kom svo inn í hópinn. Sama með Ísak Óla Ólafsson núna með Sönderjyske. Við tókum þá ákvörðun að taka ekki Mikael inn í seinni leikinn [gegn Írlandi]. Sagan er ekki flóknari en þetta."


Alls ekki sammála því að Mikael hafi valið það besta fyrir sig
Arnar var spurður hvort hann skildi ákvörðun Mikaels að velja bikarleikinn framyfir leikinn gegn Ítalíu með U21. Arnar var einnig spurður hvort hann væri sammála ákvörðuninni.

„Ég skil að leikmenn eru að búa til sinn feril og eru að brjóta sér leið inn í liðið þar sem þeir eru að spila. Ég skil að það er mjög mikilvægt. En það er líka mikilvægt að spila landsleiki. Munurinn á með þessu með Mikael og þegar ég tala um Kolbein og Ísak er sá að ég ræddi við þá því þeir áttu að vera í U21 hópnum. Mikael er búinn að vera í A-landsliðinu og það var Erik sem ræddi við hann."

„Mikael tekur þá ákvörðun að vilja ekki spila þennan leik. Það er allt í lagi mín vegna, þá veljum við hann ekki í U21 verkefnið í Írlandi. Ég skil rökin á bakvið þetta hjá honum að hann þarf að komast í sitt lið en ég er ekki sammála því að þetta hafi verið best fyrir hann, alls ekki."

Útvarpsþátturinn - Arnar Viðars, Sindri Kristinn og enski
Athugasemdir
banner
banner