West Ham í viðræðum um Kante - Tottenham hefur áhuga á miðjumanni Man Utd - Fulham vill Andre
   sun 23. júní 2024 18:57
Ívan Guðjón Baldursson
Besta deildin: Daníel kom inn af bekknum og reyndist hetja KA
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KA 3 - 2 Fram
1-0 Sveinn Margeir Hauksson ('8)
1-1 Kennie Chopart ('12)
1-2 Kennie Chopart ('36)
2-2 Daníel Hafsteinsson ('78)
3-2 Daníel Hafsteinsson ('93)

Lestu um leikinn: KA 3 -  2 Fram

KA og Fram áttust við í fyrsta leik dagsins í Bestu deild karla og fór leikurinn fjörlega af stað, þar sem Sveinn Margeir Hauksson skoraði laglegt mark strax á áttundu mínútu til að taka forystuna fyrir Akureyringa.

Sveinn Margeir gerði mjög vel að klára með marki eftir frábæran undirbúning Birgis Baldvinssonar, sem lyfti boltanum snyrtilega yfir varnarmenn Fram til að gefa stoðsendinguna.

Forysta KA dugði þó ekki lengi því Kennie Knak Chopart jafnaði metin með skalla eftir hornspyrnu frá Fred Saraiva skömmu síðar.

Bæði lið fengu færi í skemmtilegum fyrri hálfleik en það var Kennie sem tók forystuna fyrir Fram á 36. mínútu eftir slæm mistök Steinþórs Más Auðunssonar á milli stanga KA.

Steinþór Már hljóp af marklínunni til að ná til boltans eftir langa sendingu frá Ólafi Íshólm Ólafssyni markverði upp völlinn. Steinþór tapaði þó kapphlaupinu við Kennie, sem skallaði boltann í opið markið.

Fram leiddi því eftir jafnan og skemmtilegan fyrri hálfleik en seinni hálfleikurinn byrjaði á því að markaskorarinn Kennie Chopart þurfti að fara meiddur af velli. Viðar Örn Kjartansson fékk þá að spreyta sig, hann kom inn af bekknum í hálfleik en tókst ekki að setja mark sitt á leikinn.

Fram sótti í upphafi síðari hálfleik og reyndi að tvöfalda forystuna en þær tilraunir báru ekki árangur. KA tókst að vinna sig aftur inn í leikinn er tók að líða á seinni hálfleik og gerði Daníel Hafsteinsson jöfnunarmark á 78. mínútu, eftir góða fyrirgjöf frá Ingimar Stöle.

KA var með yfirburði eftir jöfnunarmarkið og fékk nokkur hálffæri áður en Daníeli tókst að gera dramatískt sigurmark í uppbótartíma, þegar hann skoraði með skalla eftir laglega fyrirgjöf frá Hans Viktori Guðmundssyni.

Lokatölur urðu 3-2 og er þetta afar dýrmætur sigur fyrir KA sem fer af botni deildarinnar og uppfyrir Fylki, sem hefur útileik gegn FH innan skamms.

Fram er áfram með 13 stig og hefur ekki unnið deildarleik síðan 5. maí.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner