Everton er að landa danska sóknartengiliðnum Jesper Grænge Lindström á lánssamningi frá Napoli.
Lindström er 24 ára gamall og spilar sem sóknartengiliður að upplagi en getur einnig leikið úti á sitthvorum kantinum.
Lindström var keyptur til Napoli í fyrrasumar eftir að hafa verið mikilvægur hlekkur í liði Eintracht Frankfurt í þýska boltanum, en hann átti erfitt uppdráttar á Ítalíu.
Lindström var afar eftirsóttur áður en hann skipti til Napoli og var Liverpool á meðal félaga sem reyndi að krækja í hann, en hann valdi Napoli til að fá meiri spiltíma.
Hann fékk þó ekki mikinn spiltíma í Napoli og tókst hvorki að skora né leggja upp í 29 tilraunum með Napoli, þar sem hann kom þó nánast alltaf inn af bekknum.
Lindström á 16 landsleiki að baki fyrir Danmörku en var ekki með í hópnum sem fór á EM í sumar.
Hann fer til Everton á lánssamningi sem gildir út tímabilið en hann á ennþá fjögur ár eftir af samningi sínum við Napoli.
Athugasemdir