Gomes efstur á óskalista Newcastle - Liverpool hefur einnig áhuga - Rætt um að stækka HM kvenna
   fös 23. ágúst 2024 12:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Hvar spila Víkingar heimaleiki sína í Sambandsdeildinni?
Laugardalsvöllur er eini leikvangurinn á Íslandi sem er löglegur fyrir leiki í Evrópukeppni.
Laugardalsvöllur er eini leikvangurinn á Íslandi sem er löglegur fyrir leiki í Evrópukeppni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Víkingsvöllur hefur staðist kröfur UEFA í forkeppninni.
Víkingsvöllur hefur staðist kröfur UEFA í forkeppninni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Haraldur Haraldsson.
Haraldur Haraldsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sigrinum í gær fagnað.
Sigrinum í gær fagnað.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Breiðablik mætti Gent á Laugardalsvelli í nóvember í fyrra.
Breiðablik mætti Gent á Laugardalsvelli í nóvember í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Laugardalsvöllur, þjóðarleikvangur okkar Íslendinga, er eini leikvangurinn sem uppfyllir kröfur UEFA þegar kemur að því að spila í Sambandsdeildinni. Víkingur spilaði heimaleiki sína í forkeppninni á Víkingsvelli, en sá völlur uppfyllir ekki kröfur UEFA þegar kemur að sjálfri deildarkeppninni.

Fótbolti.net ræddi við framkvæmdastjóra Víkings, Harald Haraldsson, í dag og voru vallarmálin til umræðu. Víkingur er með 5-0 forskot fyrir seinni leikinn gegn UE Santa Coloma í umspilinu og það þyrfti eitthvað ótrúlegt að gerast á þjóðarleikvanginum í Andorra svo að Víkingar færu ekki áfram. Víkingur mun spila þrjá heimaleiki og þrjá útileiki í keppninni.

Lestu um leikinn: Víkingur R. 5 -  0 Santa Coloma

„Við horfum bara í Laugardalsvöll. Það er sjálfgefið, það er í leyfiskerfi sambandsins að það leggur til völl ef félag kemst í þessa stöðu," segir Haraldur.

Enginn möguleiki á undanþágu
Hann segir engan möguleika á að fá undanþágu til að spila í Víkinni.

„Ekki ef Laugardalsvöllur er klár, þá fengist það ekki í gegn. Það vantar svo rosalega mikið upp á alla leikvanga á Íslandi til að fá leyfi. Það þyrftu að vera einhverjar mjög sérstakar ástæður svo leyfið fengist."

Ljóst er að Víkingur mun spila heimaleik í Sambandsdeildinni í desember. Ef komið er fram í nóvember og Laugardalsvöllur er ekki klár, væri þá hægt að færa leikinn á Víkingsvöll?

„Það er eiginlega vonlaust að taka við einhverjum áhorfendafjölda erlendis frá, upp á aðskilnað þeirra frá okkar stuðningsmönnum og allt þess háttar. Ég held að völlur eins og Kópavogsvöllur væri alltaf á undan í röðinni. Svo er líka vesen með ljós og alla aðstöðu með fjölmiðla. Þetta geta orðið svo stórir leikir ef þú dregst á móti stórum liðum. Við gætum alveg verið ótrúlega heppnir og fengið minni lið frá Wales eða Færeyjum sem dæm. Það er allt öðruvísi en að mæta t.d. Chelsea, Fiorentina eða Betis. Það er munur á því hvort að það komi 50 Færeyingar eða 2000 stuðningsmenn Chelsea."

Tvær umferðir í desember
Hefur samtalið verið tekið um hvar verði spilað ef Laugardalsvöllur verður ekki klár?

„Það er dregið í riðla eftir viku og vikuna eftir það eru vinnufundir félaganna í keppninni haldnir í Sviss. Þar hittast öll félögin og fulltrúar UEFA. Ég geri ráð fyrir að KSÍ sé þegar að skoða sín mál því það er ljóst að það verða tvær umferðir í desember. Blikar spiluðu í fyrra sinn síðasta heimaleik í nóvember. Þetta verður eitthvað ævintýri."

Ef það er leikur í desember gegn þokkalega stóru liði, verður sá leikur spilaður í Kópavogi?

„Reglurnar eru þannig að lið þarf að ákveða heimavöll og svo spila alla heimaleikina sína á sama velli. Það þarf að vera nægilega öflug lýsing, sem enginn völlur á Íslandi hefur nema Laugardalsvöllur. Það er mikið lagt upp úr því að allir leikirnir í keppninni eru spilaðir á sama tíma, tveir leiktímar á fimmtudögum þar sem leikirnir eru spilaðir. Það eru leiktímar sem eru okkur ekki mjög vænir út af birtu, við yrðum alltaf að spila fyrr."

Blikar spiluðu á móti Maccabi Tel Aviv á Kópavogsvelli í nóvember í fyrra. Hinir tveir heimaleikir liðsins fóru fram á Laugardalsvelli. Leikurinn gegn Maccabi hófst klukkan 13:00.

Allra síðasti kostur að spila heimaleikina erlendis
Hafa Víkingar velt því fyrir sér að spila heimaleikina sína erlendis?

„Það er allra, allra síðasti kostur. Það er yrði alltaf svakalega dýrt. Að vera með liðið, leigja völl og sjá um öryggisgæslu. Ef það eru að koma mikið af stuðningsmönnum þá þarf að vera með mikla öryggisgæslu. Það er kostnaður sem myndi lenda á okkur eða yfirvöldum sem hafa ekki staðið sig í því að skaffa völl."

Það er engin leið fyrir fram að semja um að spila fyrstu tvo leikina á Laugardalsvelli og svo síðasta leikinn annars staðar? Eða hvað?

„Það þyrfti einhverja mjög sérstaka undanþágu á slíkt. Þetta kemur í ljós þegar við verðum dregnir upp úr pottinum, hvernig þetta mun liggja fyrir. Þá er mánuður í fyrsta leik og við þurfum að vera með allt okkar klárt á fundinum eftir tæpar tvær vikur."

Haraldur segir að það sé talsvert skemmtilegra að vera með höfuðverk út af velgengni, frekar en annars konar höfuðverk.

„Það er miklu betri höfuðverkur, mjög ánægjulegt" sagði Haraldur og hló.
Athugasemdir
banner
banner
banner