Marokkómaðurinn Hakim Ziyech er að ganga í raðir Wydad Casablanca í Marokkó en þetta fullyrðir ítalski félagaskiptasérfræðingurinn Fabrizio Romano á X.
Ziyech átti flottan feril í Evrópu en hann lék frábærlega með Ajax, Heerenveen og Twente í Hollandi.
Hann var seldur frá Ajax til Chelsea árið 2020 en fann sig aldrei hjá enska liðinu og var látinn fara þremur árum síðar.
Sóknartengiliðurinn spilaði með Galatasaray í Tyrklandi í tvö ár og átti flott fyrra tímabil með liðinu, en samningi hans var rift í janúar á þessu ári og samdi hann nokkrum dögum síðar við Al Duhail í Katar en þeirri dvöl lauk eftir aðeins fjóra mánuði.
Romano segir Ziyech nú á 'heimleið' eftir frábæran feril. Leikmaðurinn er fæddur og uppalinn í Hollandi, en foreldrar hans koma frá Marokkó og valdi hann að spila með marokkóska landsliðinu í stað þess hollenska.
Hann er nú búinn að ganga frá samningaviðræðum við Wydad Casablanca, besta liði Marokkó, en lengd samningsins kemur ekki fram.
Ziyech, sem er 32 ára gamall, á 64 A-landsleiki og 25 mörk fyrir Marokkó. Hann fór með landsliðinu á HM í Rússlandi árið 2018 og svo aftur í Katar árið 2022, þar sem hann var gríðarlega mikilvægur er liðið fór í undanúrslit í fyrsta sinn í sögunni.
Athugasemdir