Liverpool undirbýr tilboð í Smit - Jackson vill ekki fara frá Bayern - Baleba ofarlega á óskalista Amorim - Pulisic bíður með að skrifa undir
   mán 17. nóvember 2025 16:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
„Veit ekki hvort svarið komi einhvern tímann til manns"
'Ef þú hefðir boðið mér fyrir tímabilið að vinna bikarinn og falla, ég veit ekki hvað maður hefði sagt við því'
'Ef þú hefðir boðið mér fyrir tímabilið að vinna bikarinn og falla, ég veit ekki hvað maður hefði sagt við því'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Vestri varð bikarmeistari í fyrsta sinn í sögunni en það var síðasti sigurleikur liðsins á tímabilinu.
Vestri varð bikarmeistari í fyrsta sinn í sögunni en það var síðasti sigurleikur liðsins á tímabilinu.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
'Frábær leikmaður og ég held að það myndi veikja öll lið að missa hann út'
'Frábær leikmaður og ég held að það myndi veikja öll lið að missa hann út'
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Vestri var í 6. sæti eftir 20 umferðir í deildinni.
Vestri var í 6. sæti eftir 20 umferðir í deildinni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Vestri lék virkilega vel framan af tímabili en þegar leið á fór að halla undan fæti og eftir sigur í bikarúrslitaleik náði Vestri ekki að vinna leik í deildinni.

Liðið féll úr deildinni eftir að hafa tapað úrslitaleik gegn KR í lokaumferðinni. Fótbolti.net ræddi við Elmar Atla Garðarsson, fyrirliða Vestra, og var hann spurður hvers vegna liðið féll eftir að hafa spilað svona vel framan af.

Voru drullulélegir eftir bikarúrslitin
Núna eru nokkrar vikur liðnar frá því að Vestri féll úr Bestu deildinni. Getur fyrirliðinn sett fingur á það af hverju Vestri féll niður um deild?

„Ég er búinn að fara yfir þetta fram og til baka og ég eiginlega get ekki svarað því, þetta er ógeðslega erfið spurning. Þetta er eiginlega ótrúlegt, ég held að þetta bikardót hafi mögulega verið eitthvað sem við réðum ekki við, allt þetta í kringum það. Auðvitað er leiðinlegt að segja það, og mann langar ekki að viðurkenna að það hafi spilað eitthvað inn í að við höfum orðið drullulélegir eftir það, en það er eiginlega það eina sem mér dettur í hug."

Er hægt að orða það þannig að það hafi verið stærra fyrir alla að vinna bikarinn en að halda sætinu? Að stóri sigurinn hafi verið unninn?

„Það er alveg hægt að segja það, en ég veit það ekki. Ef þú hefðir boðið mér fyrir tímabilið að vinna bikarinn og falla, ég veit ekki hvað maður hefði sagt við því. Auðvitað vill maður vera í efstu deild og allt það, en aftur á móti er risastórt að vinna bikarinn, ég tala nú ekki um fyrir félag eins og Vestra. Ef við hefðum náð að halda okkur uppi þá hefði þetta verið frábært tímabil hjá okkur, og það er hægt að færa rök fyrir því að þetta hafi verið ágætis tímabil þótt við höfum endað á að falla."

„Svo er smá súrt að horfa í það að þessi stigafjöldi hafði fram að þessu tímabili dugað til þess að halda sér uppi."


Ógeðslega erfitt að svara þessu
Hvernig upplifðir þú þetta allt saman eftir bikarúrslitin?

„Fyrst var Víkingsleikurinn, ótrúlega skrítinn leikur nokkrum dögum eftir að við unnum bikarinn, það var alveg greinileg þynnka ennþá í mönnum. Svo spilum við gegn KR heima helgina eftir, gerðum jafntefli við þá þar sem vantaði bæði Aron Sig og Eið Gauta hjá þeim. Það var dauðafæri að vinna þá á þeim tíma, en við gerðum það ekki. Eftir það kom bara ömurleg hrina þar sem við skíttöpum leikjum. Það er ógeðlega erfitt að svara þessu."

„Í hópnum var ekkert vesen milli manna eða neitt, gaman að mæta á æfingar og menn voru bara ferskir. Við vissum alveg að við þyrftum að rífa okkur í gang, en svo bara kom þetta aldrei."

„Svo var Davíð látinn fara, þjálfarabreytingar og allt þetta. Ég veit ekki hvort að svarið komi einhvern tímann til manns, af hverju við féllum."


Algjör lykilmaður meiddist
Elmar var spurður út í þá staðreynd að einn allra besti leikmaður liðsins, Fatai Gbadamosi, varð fyrir því óláni að slíta krossband í haust og missti af lokaleikjunum.

„Það gleymist aðeins að Fatai datt út, hann er ógeðslega góður og mikilvægur. Það er auðvelt að benda á það þegar maður horfir í úrslitin með og án hans. Maður hefði alltaf kosið að hafa hann, frekar en ekki. Það er svolítið ef og hefði, en hann er frábær leikmaður og ég held að það myndi veikja öll lið að missa hann út."

Myndi aldrei detta í hug að kenna dómurum um fallið
Elmar var svo að lokum spurður út í dómgæsluna, en nokkur stór atvik féllu gegn Vestra á tímabilinu.

„Það er mjög auðvelt eftir á að vorkenna sér, en svona er bara íslenskur fótbolti, hlutir gerast. Stundum lendirðu þeim megin að vera ósáttur og stundum ertu heppinn. Heilt yfir í sumar fannst mér við frekar vera óheppnir með dómaraákvarðanir. Svo breytist það kannski á næsta ári, kannski verðum við hinu megin við línuna þá."

„Það er aldrei hægt að segja að dómararnir hafi fellt okkur úr þessari deild, myndi aldrei detta það í hug,"
segir Elmar Atli.
Athugasemdir
banner
banner
banner