Fram undan er ársþing KSÍ þar sem meðal annars verður kosið á milli tveggja frambjóðenda í embætti formanns hreyfingarinnar. Mig langar til að leggja orð í belg og vekja athygli á nokkrum mikilvægum atriðum er varða stöðu, annars frambjóðandans og þeirra samtaka sem hann er fulltrúi fyrir.
Sævar Pétursson situr í stjórn fyrirbæris sem kallar sig Íslenskan toppfótbolta, ÍTF. Formaður þessara samtaka situr í stjórn KSÍ. Stjórn samtakanna er skipuð fimm körlum. Samtökin, sem í orði eru samtök allar knattspyrnufélaga í landinu er furðulegt fyrirbæri, svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Í raun hreinn óskapnaður, ríki í ríkinu, sem sækist eftir því að skara eld að eigin köku og er í verki aðeins hagsmunasamtök félaga í efstu deild karla eins og félagsskapurinn var stofnaður til.
Kvennaliðin hafa ekki fitnað af því að vera sýndarhluti af þessum félagsskap. Ekkert af því fjármagni sem aflað hefur verið í nafni ÍTF hefur skilað sér til kvennaliðanna sjálfra. Það get ég staðfest sem formaður og gjaldkeri hjá Þór/KA frá 2005 til 2021. Hagsmunirnir eru þröngir og baráttan er í raun fyrir örfá félög sem eiga karlalið í efstu deild. Raunveruleg framganga ÍTF er þannig fremur til þess fallin að sundra hreyfingunni en að sameina hana. Það kann því varla góðri lukku að stýra að fulltrúi þessa félagsskapar taki við stýrinu fyrir hreyfinguna alla.
Vafalaust fæ ég athugasemdir við þennan málflutning og bent á samninginn sem kynntur var/verður í dag. Sá samningur er um margt jákvæður fyrir aðildarfélögin. Ég er hins vegar sannfærður að KSÍ hefði náð samningum til jafns við þennan þó svo að ÍTF hefði ekki notið við. Þekking og reynsla varðandi slík mál er til staðar innan KSÍ.
Framganga ÍTF síðsumars 2021, þegar gustaði um hreyfinguna og stjórn hennar, vakti athygli. Fyrir fólk sem ekki þekkir til má vera að ÍTF og Sævar sem andlit hennar í viðtali í Kastljósi og víðar, hafi þar birst eins og frelsandi afl, tilbúið að berjast gegn hvers kyns ofbeldi og reiðubúið að bæta starf hreyfingarinnar innan frá á því sviði sem og öðrum. Jafnréttissinnuðu og mjúku mennirnir sem þjóðin vildi sjá. Þegar betur er að gáð var þetta í raun lítið annað en tækifærismennska.
Tækifærismennskan sést meðal annars á því að Sævar og félagar hans í ÍTF sáu sér leik á borði og stukku á vagninn í lok ágúst þegar það hentaði gagnvart hinum almenna félagsmanni og almenningsálitinu, gagnrýndu stjórn og framkvæmdastjóra KSÍ með miklum látum, en buðust ekki til að aðstoða við úrlausn vandans. Þarna birtust úlfarnir í sauðagæru, saklausir og tilbúnir að berjast fyrir réttlæti og jafnrétti.
Eyðilögðu mannorð sjálfboðaliðans í stjórn KSÍ, fólks sem kom jafnvel úr þeirra eigin félögum og búið að starfa í áratugi að framgangi knattspyrnunnar. Formaður ÍTF sá hins vegar enga ástæða til að ganga úr stjórn KSÍ, þrátt fyrir að hann og stjórn ÍTF hafi sett saman ályktun þess efnis að stjórn KSÍ skildi víkja. Ályktunin átti ekki við um hann eða hvað ?
Það vantar auðvitað ekki fagurgalann þegar menn vilja ná eyrum kjósenda í þessu tilfelli er smjaðrað fyrir fulltrúum aðildarfélaga KSÍ sem hafa atkvæðisrétt á ársþinginu. Sævar heitir því að berjast fyrir jafnrétti eða halda áfram á braut jafnréttis innan knattspyrnunnar, eins og hann orðaði það í framboðsyfirlýsingu sinni.
Ekki hef ég orðið var við að Sævar hafi barist fyrir jafnrétti á þeim vetfangi sem hann hefur starfað þ.e. innan ÍTF. Treystir fólk sem vill berjast fyrir framgangi kvennaknattspyrnu Sævari til að leiða það verkefni að efla kvennaknattspyrnuna og „halda áfram á braut jafnréttis“? Treysta nývakin hagsmunasamtök kvenna í knattspyrnu Sævari og ÍTF til að fara með þetta vald?
Er líklegt að Sævar sé það sameiningartákn sem hreyfingin þarf á að halda í dag?
Mín skoðun er sú að það sé Sævar ekki, byggi ég skoðun mína á framgöngu hans og ÍTF, sem ég hef tíundað hér að framan.
Aðeins um Vöndu, hún tók að sér erfitt verkefni á haustdögum, skútan var algjörlega komin á hliðina. Með markvissri vinnu og aðkomu fagfólks hefur tekist að sigla skútunni í var. Vanda ásamt því fólki sem fór í stjórn KSÍ á haustdögum hefur búið þannig um hnúta að við getum loksins farið að ræða um knattspyrnu aftur eins og svo mörgum hefur verið tíðrætt um.
Ég skora á fulltrúa á ársþingi KSÍ að hugsa sig vel um þegar greidd verða atkvæði í formannskjörinu og Vanda sig við það.
Verðandi formanni óska ég fyrir fram til hamingju með kosninguna.
Með kveðju
Nói Björnsson, Akureyri
Fv leikmaður í mfl í knattspyrnu, þjálfari og stjórnarmaður frá 1977-2021
Athugasemdir