Það var ekki margt sem kom á óvart í leikjum kvöldsins í undankeppni fyrir næsta Afríkumót sem haldið verður í janúar og febrúar 2024.
Óvæntustu úrslitin litu dagsins ljós í Nígeríu þar sem heimamenn töpuðu afar óvænt gegn Gíneu-Bissá þrátt fyrir að stilla upp stjörnum prýddu byrjunarliði. Nígería er í öðru sæti eftir þetta tap, einu stigi eftir toppliði Gíneu með sex stig eftir þrjár umferðir.
Victor Osimhen og Kelechi Iheanacho leiddu sóknarlínu Nígeríu ásamt Ademola Lookman, með Alex Iwobi, Samuel Chukwueze og Wilfred Ndidi fyrir aftan sig. Virkilega öflug sóknarlína sem tókst ekki að koma boltanum í netið í dag.
Nicolas N'Koulou, sem lék með Watford á síðustu leiktíð, gerði þá eina mark Kamerún í jafntefli gegn Namibíu á meðan Sadio Mane og Mohamed Salah komust báðir á blað í sigrum hjá Senegal og Egyptalandi.
Mane skoraði í 5-1 sigri gegn Mósambík á meðan Salah skoraði og lagði upp í 2-0 sigri gegn Malaví.
Sebastien Haller skoraði að lokum í sigri Fílabeinsstrandarinnar og setti Lyle Foster, framherji Burnley, tvennu í jafnteflisleik Suður-Afríku.
Fílabeinsströndin 3 - 1 Kómoreyjar
Nígería 0 - 1 Gínea-Bissá
Suður-Afríka 2 - 2 Líbería
Senegal 5 - 1 Mósambík
Egyptaland 2 - 0 Malaví
Kamerún 1 - 1 Namibía
Gínea 2 - 0 Eþíópía
Túnis 3 - 0 Líbía
Malí 2 - 0 Gambía
Miðbaugs Gínea 2 - 0 Botsvana
Búrkína Fasó 1 - 0 Tógó
Grænhöfðaeyjar 0 - 0 Esvatíní
Úganda 0 - 1 Tansanía
Austur-Kongó 3 - 1 Máritanía