Panama kom öllum á óvart á fimmtudagskvöldið þegar þjóðinni tókst að sigra gegn Bandaríkjunum í undanúrslitum Þjóðadeildarinnar.
Bandaríkjamenn spiluðu á heimavelli og voru sterkari aðilinn en tókst ekki að skapa sér mikið af færum gegn þrjóskum gestum.
Panama fékk ekki færi fyrr en í uppbótartíma, þegar varamanninum Cecilio Waterman tókst að koma boltanum í netið á 94. mínútu.
Waterman og liðsfélagar hans trylltust af gleði og ákvað leikmaðurinn að spretta bakvið markið til að fagna með frönsku goðsögninni Thierry Henry.
Waterman hafði komið auga á Henry á útsendingapalli CBS sjónvarpsstöðvarinnar sem er bakvið markið og ákvað að nýta tækifærið þegar hann skoraði til að fagna með stórstjörnunni.
Waterman knúsaði Henry áður en restin af Panama-liðinu mætti á svæðið til að fagna.
„Ég hef lent í ýmsu á fótboltaferlinum en þetta er eitthvað sérstakt. Þetta er besta fagn sem ég hef séð," sagði Henry.
Mauricio Pochettino landsliðsþjálfari Bandaríkjanna segir að sínir menn eigi engar afsakanir eftir þetta tap. Þetta eru vandræðaleg úrslit fyrir landsliðið eftir að hafa einnig tapað gegn Panama í Copa América í fyrra, úrslit sem leiddu til þess að Gregg Berhalter var rekinn úr þjálfarastarfinu.
Athugasemdir