Trent búinn að semja við Real um kaup og kjör - Man Utd ætlar að losa sig við Rashford og Casemiro - United skoðar ungan Tyrkja
   mán 24. mars 2025 14:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Rúnar Kristins: Hörkuleikmaður sem hefur spilað með frábærum félögum
Simon Tibbling er þrítugur Svíi sem er með gríðarlega flotta ferilskrá
Simon Tibbling er þrítugur Svíi sem er með gríðarlega flotta ferilskrá
Mynd: Fram
Hann varð Evrópumeistari með sænska U21 árið 2015. Hann missti af eiginlega öllu síðasta tímabili vegna bakmeiðsla.
Hann varð Evrópumeistari með sænska U21 árið 2015. Hann missti af eiginlega öllu síðasta tímabili vegna bakmeiðsla.
Mynd: EPA
Rúnar Kristinsson er á leið í sitt annað tímabil sem þjálfari Fram.
Rúnar Kristinsson er á leið í sitt annað tímabil sem þjálfari Fram.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sænski miðjumaðurinn Simon Tibbling gekk í raðir Fram í síðustu viku og skrifaði undir samning sem gildir út komandi tímabil. Tibbling er reynslumikill leikmaður sem á öfluga ferilskrá. Hann varð á sínum tíma bikarmeistari í Hollandi og í Danmörku og Evrópumeistari með U21 landsliði Svía. Hann verður 31 árs í haust.

Fótbolti.net ræddi við Rúnar Kristinsson, þjálfara Fram, um komu Svíans.

Tibbling kemur til Fram eftir að hafa glímt við meiðsli á síðasta ári þar sem hann spilaði lítið með Sarpsborg í norsku úrvalsdeildinni.

„Hann fór í aðgerð snemma á síðasta tímabili og var í raun orðinn klár fyrir lokaleikina í deildinni. Hann ákvað að taka ekki þátt í þeim leikjum, ákvað að taka enga sénsa og fá lengri tíma til að ná sér. Hann var að renna út á samningi og Sarpsborg ákvað að bjóða honum ekki samning. Það voru einhver lið hrædd við að taka hann þar sem hann var ekki búinn að spila neitt að ráði eftir aðgerðina. Hann verður svo 31 árs á þessu ári," segir Rúnar.

„Hann var bara laus (án félags) og var bara mjög spenntur fyrir möguleikanum að koma og hitta okkur á Spáni, æfa með okkur og svo sjá svo til, eins og við, hvort hann væri leikmaðurinn sem við værum liðið sem hann væri að leita sér eftir. Þetta small allt mjög vel saman, hann var mjög ánægður. Hann spilaði klukkutíma í leiknum gegn Ranheim á Spáni og svo klukkutíma gegn Selfossi á laugardaginn. Hann er búinn að æfa allar æfingar og það er ekkert að sjá neitt á honum að það sé eitthvað að honum. Hann er búinn að vera mjög flottur."

Þarftu að fara varlega með hann, byggja ofan á þessa klukkutíma sem hann hefur spilað?

„Þessir klukkutímar eru til að byggja ofan á. Hann er ekki búinn að spila síðan í maí í fyrra, en er búinn að æfa alveg á fullu frá því í nóvember. Leikformið er kannski ekki alveg komið og þess vegna vorum við að fara varlega með hann. Ég reikna nú með að spila honum aðeins lengur um næstu helgi og svo ætti hann að vera góður þegar mótið byrjar. Hann æfir mjög vel, finnur ekki fyrir neinu."

„Læknirinn okkar skoðaði hann mjög vel í æfingaferðinni. Hann var að glíma við bakmeiðsli og aðgerðin var til að létta á þeim."


Sérðu glefsur af því að þetta sé fyrrum leikmaður Groningen og Bröndby og varð Evrópumeistari með U21 liði Svía?

„Þú sérð það alveg að þetta er hörkuleikmaður sem hefur spilað með frábærum félögum. Hann hefur gert vel og spilað mikið alls staðar þar sem hann hefur verið. Það er mjög margt gott í honum og hefur hrifið okkur mikið. Hann hjálpar okkur í því að passa boltann og búa til spil í kringum hann. Hann er hörkugóður leikmaður."

„En svo er hitt í þessu. Það er menningarmunur á deildum almennt í heiminum. Að koma inn í íslenska boltann er allt öðruvísi en að spila í Hollandi, Svíþjóð eða Noregi. Við þurfum að sjá hvernig það tekst til. Það sem hann er búinn að sýna okkur hingað til, í leikjunum tveimur, þá er hann búinn að vera mjög flottur og við erum mjög ánægðir með hann,"
segir Rúnar.

Ertu nokkuð sáttur með hópinn eftir komu Tibbling eða ertu að skoða áfram í kringum þig?

„Við erum eiginlega ekkert að skoða, held að við séum bara nokkuð góðir."

Rúnar segir þá að Guðmundur Magnússon og Róbert Hauksson séu að snúa til baka eftir meiðsli og verði vonandi með í æfingaleiknum gegn Gróttu um næstu helgi.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner