Sænski miðjumaðurinn Simon Tibbling hefur samið um að leika með Fram á komandi tímabili en félagið greinir frá þessu í kvöld.
Simon er stórt nafn í skandinavíska boltanum. Þessi þrítugi leikmaður er uppalinn hjá Djurgården og spilaði þrjú tímabil með aðalliðinu áður en hann var seldur til Groningen í Hollandi þar sem hann vann hollenska bikarinn.
Einnig lék hann með Bröndby, þar sem hann varð danskur bikarmeistari, ásamt því að hafa leikið með Emmen, Randers og nú síðast Sarpsborg í Noregi.
Þá var hann hluti af U21 árs landsliði Svía sem vann Evrópumótið árið 2015 og leikið einn A-landsleik.
Simon fór í æfingaferð Framara á Spáni og gengið vel að aðlagast hópnum. Félagið og Simon hafa náð samkomulagi um að hann spili með liðinu í sumar og Framarar komnir í ansi góð mál fyrir leiktíðina.
Hann spilaði ekki mikið á síðustu leiktíð vegna meiðsla og talaði um það í samtali við Fotbollskanalen að það væri gott tækifæri fyrir hann að koma ferlinum aftur af stað með því að fara í Fram og að það væri spennandi að fara í ævintýri til Íslands.
Framarar mæta Skagamönnum í 1. umferð Bestu deildar karla en hann er spilaður á Lambhagavellinum 6. apríl næstkomandi.
Athugasemdir