Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   mán 24. apríl 2023 08:00
Matthías Freyr Matthíasson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Velkomin til Wrexham
Matthías Freyr Matthíasson
Matthías Freyr Matthíasson
Fyrir utan The Turf.
Fyrir utan The Turf.
Mynd: Matthías Freyr Matthíasson
Fyrirheitna landið.
Fyrirheitna landið.
Mynd: Matthías Freyr Matthíasson
Wrexham - Southend.
Wrexham - Southend.
Mynd: Matthías Freyr Matthíasson
Rob McElhenney og  Ryan Reynolds eigendur Wrexham fagna sigrinum um helgina.
Rob McElhenney og Ryan Reynolds eigendur Wrexham fagna sigrinum um helgina.
Mynd: Getty Images
Jordan Davies fagnar sigrinum um helgina.
Jordan Davies fagnar sigrinum um helgina.
Mynd: Getty Images

Nú til dags er það ekkert óalgengt að við sjáum sjónvarps- og kvikmyndastjörnur eða jafnvel aðrar stjörnur úr öðrum íþróttum fjárfesta í enskum knattspyrnufélögum. Hinsvegar held ég að það hafi komið flestum á óvart þegar fréttir bárust af því snemma ársins 2021 að Ryan Reynolds (Deadpool m.a) og Rob McElhenny (It´s Always Sunny in Philadelphia m.a.) hafi keypt velska fótboltaklúbbinn Wrexham AFC.


Kannski einna helst vegna þess að félagið var (og er þegar þetta er skrifað) að spila í 5. deildinni í Bretlandi. Liðið á þeim tíma var búið að vera þar í 13 ár og á sér ekki glæsta eða mikla sögu í knattspyrnuheiminum, það er að segja að ekki er um stóra titla að ræða eða baráttu á meðal bestu liða hverju sinni líkt og í Evrópukeppnum. Besti árangurinn hjá klúbbnum var 15. sæti í því sem heitir í dag, Championship, eða næst efstu deild. Liðið hinsvegar á heimavöll sem heitir The Racecourse Ground (sem samkv. heimsmetabók Guinness er elsti alþjóðlegi leikvöllur í heimi) og getur tekið á móti nærri 11.000 áhorfendum. Sem er ansi magnað.

Spólum nú aðeins fram í tímann, eða til haustins 2022. Meðvitund almennings um tilvist Wrexham AFC hafði aukist töluvert eftir að nýir eigendur tóku við klúbbnum, enda þeir duglegir við að vekja athygli á honum á samfélagsmiðlum. En í ágúst 2022 kom fram á sjónarsviðið sjónvarpsserían Welcome to Wrexham sem byggir á svipuðum grunni og til að mynda þáttaraðirnar Sunderland ti´ll I Die sem Netflix framleiddi. Í Welcome to Wrexham er fylgst með fyrsta heila tímabili Wrexham undir stjórn nýrra eigenda, þjálfara og leikmannaskipti og öllu síðast en ekki síst, stuðningsmönnum Wrexham. Íbúar í Wrexham sem fylgst hafa með liðinu sínu ganga í gegnum aðallega súra hluti á undanförnum árum og upplifað vonbrigði eftir vonbrigði og sjá nú loksins einhverja birtu í enda dimmra ganga við það að Ryan & Rob hafi eignast klúbbinn. Til að taka það fram, þá þurftu þeir að kaupa klúbbinn af stuðningsmönnum sem áttu félagið á þeim tíma.

En hvernig tengist ég þessari sögu og geri ég það yfir höfuð á nokkurn hátt?

Ég, eins og margir fársjúkir áhugamenn um fótbolta hef spilað Football Manager (áður Championship Manager) í mörg ár og það sem mér fannst skemmtilegast var að finna lið sem gátu ekki neitt og taka við þeim og reyna að gera eitthvað með viðkomandi lið. Ég rakst á Wrexham fyrir einhverjum árum og án þess að vita eitt eða neitt, tók ég við liðinu. Ég var rekinn eftir eitt tímabil. En síðan þegar sjónvarpsserían kom í loftið þá mundi ég eftir nafninu og fór að horfa. Ég féll fyrir fólkinu í Wrexham og serían kveikti einhvern neista inn í mér. Svona fyrir utan það að ég er með óeðlilega mikið manchrush á Ryan Reynolds en það er allt önnur saga.

Í kjölfarið fór ég að fylgjast með öðru auganu, með árangri liðins í vetur. Það var ekki hlaupið að því að horfa á leikina þannig að úrslitaþjónustur internetsins þjónuðu ágætum tilgangi. Síðan í einhverju bríaríi ákvað ég að búa til Twitter síðu. Wrexham Icelandic Supporters Club, kannski frekar írónískt að kalla þetta klúbb þar sem ég og nokkrir félagar mínir erum í þessu saman og ég er þeirra aktívastur og held utan um Twitter reikninginn. En það sem gerðist í kjölfarið var frekar magnað. Fylgjendahópurinn stækkaði og stækkaði og einstaklingar fóru að hafa samband, bæði einstaklingar sem búa í Wrexham og annarstaðar í heimum sem og framleiðendur á sjónvarpsþáttaseríunni. Það mynduðust frekar mikil tengsl á milli mín og sumra þessara aðila. Áhugi minn á klúbbnum jókst jafnt og þétt og ég fékk þá flugu í höfuðið að ég þyrfti að sjá leik með klúbbnum á þessu tímabili. Ég og félagi minn ákváðum að fljúga út til Manchester í mars og sjá leik á móti Southend þann 11. mars.

Liðið var búið að eiga gott tímabil fram að því, sat í efsta sæti deildarinnar (aðeins eitt lið fer beint upp í League Two) og með leik til góða á Notts county (sem Guðjón Þórðarsson þjálfaði eitt sinn). Við reyndum að versla miða á leikinn þegar þeir fóru í sölu á heimasíðunni, vorum búnir að kaupa flug. Miðarnir seldust upp á 3-5 mínútum og við fengum ekki miða. Þá voru góð ráð dýr! Þar kom Twitter síðan að góðum notum, spurðist ég fyrir þar og eftir ábendingar og ferðalög um ýmis vefsvæði, rambaði ég inn á spjallsvæði á stuðningsmannasíðu og í gegnum þá síðu fékk ég vilyrði um tvo miða frá manni sem ég hafði aldrei talað við, við myndum bara hittast á leikdag og málið væri klárt. Frábært. Þá var það frá að minnsta kosti!

Ég notaðist svo við Twitter síðuna og lét vita að við værum tveir að koma og leitaði ráða hvað skemmtilegt væri nú að gera í Wrexham annað en að horfa á leikinn. Fékk ég fjölda skilaboða með ábendingum um skemmtilega hluti að gera í Wrexham og hvort við þyrftum á einhverri hjálp að halda. Daginn áður en við förum út ákvað ég að leita ráða enn og aftur á Twitter um hver væri þægilegasta leiðin til að fara til Wrexham frá Manchester, lest, leigubíll, rúta?

Ég var ekki að búast við neinu öðru en í mesta lagi ráðleggingu um þetta en nei, svo varð aldeilis ekki.

Ein af aðalpersónum Welcome to Wrexham er hann Wayne Jones, eigandi barsins The Turf sem er staðsettur beint fyrir utan leikvanginn. Allt í einu fékk ég skilaboð frá honum á Twitter, þar sem hann spurði hvenær við myndum lenda í Manchester. Svaraði ég því og þá fékk ég skilaboð þess efnis frá honum að hann myndi sækja okkur á flugvöllinn og keyra okkur til Wrexham! Óhætt að segja að þetta voru ekki þau viðbrögð sem ég bjóst við, eiginlega langt því frá.

Til að gera langa sögu enn lengri að þá var hætta á því frá fimmtudagskvöldi og allt fram til seinnipart á föstudegi að leikurinn myndi ekki fara fram vegna snjókomu í Wrexham. En sem betur fer gerðist það ekki, meðal annars vegna þess að íbúar Wrexham mættu á leikvanginn snemma á laugardagsmorgni og mokuðu völlinn! Leikurinn fór fram, var satt best að segja frekar leiðinlegur en 1 – 0 sigur á Southend engu að síður staðreynd.

Alls staðar þar sem við komum í Wrexham var okkur mætt með velvilja og kátínu yfir því að tveir Íslendingar væru komnir á leik með liðinu þeirra. Það er áþreifanlegt hversu miklu máli klúbburinn skiptir samfélagið í Wrexham og hversu miklar vonir eru bundnar við eignarhaldið. Fjármunirnir sem eigendurinn hafa sett í klúbbinn og betrumbæturnar sem gerðar hafa verið á síðustu tveimur árum, meðal annars keyptu þeir völlinn til baka eftir hann var seldur á sínum tíma til að tryggja það að klúbburinn myndi lifa af, hefur verið að skila sér í vetur. Wrexham AFC sat á toppi deildarinnar fyrir leik í gær, með fleiri stig í pokanum heldur en nokkurt annað lið í deildarkeppni í Bretlandi eða 107 stig og var í dauðafæri á að tryggja sig upp í League Two með sigri í gær á Boreham Wood sem sat í 6. sæti deildarinnar og var/er í harðri keppni um að komast í umspil. Notts County veitti Wrexham harða keppni, fjórum stigum frá með 103 stig og tveir leikir eftir. Notts County spilaði sinn leik á undan og vann hann örugglega. Wrexham byrjaði illa og fékk á sig mark á 2 mínútu leiksins. En Wrexham er m.a. með leikmann sem heitir Paul Mullin (Super Paul Mullin) sem fyrir leikinn í gær var búinn að skora 36 mörk í 44 leikjum í deildinni. Hann skoraði tvö í gær og Elliot Lee eitt og því 3 – 1 sigur staðreynd og 15 ár af sársauka fyrir íbúa Wrexham og stuðningsmenn sem fylgt hafa liðinu í gegnum súrt, staðreynd. WREXHAM ER KOMIÐ Í LEAGUE TWO!

Ég sat spenntur og horfði á leikinn, klæddur bláu varatreyjunni minni (því aðalbúningurinn er uppseldur og ófáanlegur) og vonaðist til að Wrexham AFC, sem formlega er mitt lið, kæmist upp um deild. Þó ekki væri nema bara fyrir fólkið í Wrexham sem átti það skilið! Ég hlakka til að mæta á leik í League Two!

#UpTheTown


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner