Aston Villa íhugar að fá De Bruyne - Stórliðin á eftir argentínsku ungstirni - Verður Farke rekinn?
   fim 24. apríl 2025 10:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Þekki félagið vel og hef þjálfað marga af leikmönnunum áður"
Lengjudeildin
Gunnar Már tók við Fjölni fyrir stuttu.
Gunnar Már tók við Fjölni fyrir stuttu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fjölni er spáð tíunda sætinu.
Fjölni er spáð tíunda sætinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fjölnir tapaði í umspilinu í fyrra.
Fjölnir tapaði í umspilinu í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þetta er spennandi tímabil, bæði fyrir mig í þjálfarahlutverkinu og fyrir marga leikmenn að stíga inn í stærri hlutverk innan liðsins," segir Gunnar Már Guðmundsson, þjálfari Fjölnis, um komandi keppnistímabil.

Fjölni er spáð tíunda sæti Lengjudeildarinnar í spá þjálfara og fyrirliða deildarinnar.

„Við erum með nýtt lið sem er að spila sig saman og erum frekar óskrifað blað ennþá," segir Gunnar.

Gengið ágætlega að komast inn í þetta
Gunnar Már, herra Fjölnir, tók nýverið við Fjölnisliðinu eftir að Úlfur Arnar Jökulsson var óvænt látinn fara stuttu fyrir mót. Hann hefur aðeins stýrt liðinu í um tvo mánuði.

„Það hefur gengið ágætlega að komast inn í þetta," segir Gunnar. „Ég þekki félagið vel og hef þjálfað marga af leikmönnunum áður. Það hefur verið verkefni að finna leikstíl sem hentar okkar leikmannahóp og að sannfæra leikmenn um þeirra hlutverk."

Hefur mikið breyst frá því þú varst í Fjölni síðast?

„Nei það hefur ekki mikið breyst. Auðvitað hefur leikmannahópurinn breyst og stjórn að vissu leyti, en Fjölnir sem félag hefur ekki breyst mikið. Allavega þekki ég mig í þessu umhverfi og líður vel. Ég sótti aftur inn í starfið Gunna Sig markmannsþjálfara, og Einar Hermanns og Kári Arnórs komu aftur inn í liðsstjórnina, teymi sem var þegar ég var leikmaður hjá Fjölni."

Vonandi náum við inn styrkingu fyrir mót
Gunnar Már segir að staðan á hópnum sé ágæt fyrir komandi keppnistímabil.

„Staðan á hópnum er ágæt. Það er vont að mikilvægir leikmenn eru í skóla í Bandaríkjunum og mjög vont að sterkir leikmenn eru meiddir og búnir að vera meiddir stóran hluta af undirbúningnum. En þetta er að skríða saman. Við vonandi náum inn styrkingu fyrir mót, 1-2 leikmenn að minnsta kosti."

Fjölnismenn töpuðu 5-0 gegn Breiðabliki í Mjólkurbikarnum á dögunum. Er eitthvað hægt að taka úr þeim leik?

„Já það er hægt að taka jákvæða hluti úr þeim leik. Þrátt fyrir vond úrslit, þá vörðumst við vel framan af og sköpuðum okkur færi."

Á eftir þeim verður þéttur pakki
Hvernig sérð þú fyrir þér að Lengjudeildin muni spilast í sumar?

„Ég er nokkuð viss um að Fylkir og Keflavík munu berjast um toppsætið og á eftir þeim verður þéttur pakki. Það mun líklega ekki ráðast fyrr en í lokaumferðunum hverjir falla," segir Gunnar.

„Við erum með okkar markmið sem við höldum hjá okkur og flöggum ekki."

Eitthvað sem þú vilt bæta við að lokum?

„Nei, nei. kannski bara spurning til ykkar á .net. Hvernig dettur ykkur í huga að hafa Baldvin Borgars sem sérfræðing?" sagði Gunnar Már léttur að lokum.
Athugasemdir
banner