fim 24.apr 2025 10:00 Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð |
|

Spá þjálfara og fyrirliða fyrir Lengjudeildina: 10. sæti
Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í Lengjudeildinni í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð. Við fengum alla fyrirliða og þjálfara í deildinni til að spá fyrir sumarið og fengu liðin stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Fjölnir endar í tíunda sæti ef spáin rætist.
Rafael er efnilegur en hann missir af byrjun tímabilsins vegna meiðsla.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. ?
10. Fjölnir, 82 stig
11. Selfoss, 49 stig
12. Völsungur, 24 stig
10. Fjölnir
Fjölnismenn voru lengi vel á toppi Lengjudeildarinnar í fyrra og um tíma leit út fyrir það að þeir væru á leiðinni beint upp í Bestu deildina. Þeir voru með gríðarlega öfluga vörn og sterkan markvörð sem þeir byggðu á. En botninn fór úr þessu þegar líða fór á tímabili og endaði Fjölnir að lokum í þriðja sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir toppliði ÍBV. Fjölnir tapaði lokaleik sínum 4-0 gegn Keflavík en þeir hefðu farið beint upp með sigri þar. Þeir töpuðu svo í umspilinu gegn Aftureldingu. Í vetur hefur gustað mikið um Fjölnismenn og nokkuð rætt um fjárhagsvandræði. Fyrir stuttu var svo ráðist í þjálfarabreytingar á frekar skrítnum tímapunkti en eitt það áhugaverðasta fyrir þessa deild er að sjá hvað FJölnir gerir í sumar. Er möguleiki á því að þeir muni falla niður um deild?
Þjálfarinn: Gunnar Már Guðmundsson, herra Fjölnir, tók nýverið við Fjölnisliðinu eftir að Úlfur Arnar Jökulsson var óvænt látinn fara stuttu fyrir mót. „Þetta kom mér mjög á óvart. Ég hafði ekki fengið neinar vísbendingar um að þetta stefndi í þessa átt," sagði Úlfur þegar hann var látinn fara. Gunnar Már var strax efsti maður á blaði en hann gerði flotta hluti með Þrótt Vogum í 2. deild í fyrra. Gunnar Má þarf vart að kynna fyrir Fjölnisfólki. Hann er næst leikjahæsti leikmaður í sögu félagsins og hefur spilað með Fjölni í öllum deildum landsins. Hann var þjálfari meistaraflokks kvenna 2016–2017, aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla 2018–2020 og yfirþjálfari yngri flokka.
Álit Badda
Baldvin Már Borgarsson, þjálfari Árbæjar, er sérfræðingur Fótbolta.net fyrir Lengjudeildina. Hann rýnir í öll liðin fyrir tímabilið sem er framundan.

Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Núna er staðan önnur
„Fjölnismenn eru að koma inn í mót á allt öðruvísi forsendum en þeir hafa verið að gera undanfarin 20 ár eða tæplega það, félagið hafði náð góðri fótfestu milli þess að spila í efstu deild eða berjast um sæti í efstu deild þegar þeir voru ekki þar, en núna er staðan önnur, það þarf ekkert að fara enn eina ferðina ofan í fjármálahliðina en hún spilar stórt hlutverk í þeirri stöðu sem upp er komin, þó hún sé í frábærum farvegi hjá Bigga sem félagið fékk til þess að afstýra stórslysi."
„Enn verra er að félagið hefur í mörg ár getað treyst á uppsprettu ungra leikmanna, en það horfir ekki til góðs vegar í þeim málum næstu árin, félagið hefur selt sína bestu uppöldu stráka ár eftir ár og ekki tekst þeim að fylla í skörðin þetta árið."
„Fjölnir fékk inn Gunna Má sem ég tel eina manninn sem getur komið félaginu í gegnum þennan straum sem það er að synda gegn, en til þess þarf ansi margt að ganga upp, Fjölnir getur lent í alvöru vandræðum svo nú er að duga eða drepast fyrir bakhjarla og velunnara félagsins, ég skora á þá að stíga upp og styðja við bakið á sínu liði, Fjölnir á ekki heima í 2. deild en gæti hæglega þurft að spila þar að ári."
Leiðin úr Lengjunni er hlaðvarpsþáttur tileinkaður næst efstu deild karla í fótbolta. Þáttarstjórnendur eru Stefán Marteinn Ólafsson, Sverrir Örn Einarsson og Sölvi Haraldsson. Þeir velja tvo lykilmenn og einn sem gaman verður að fylgjast með úr hverju liði í Lengjudeildinni.
Lykilmenn: Brynjar Gauti Guðjónsson og Máni Austmann Hilmarsson
Fjölnir þarf að fylla vel í stór skörð aftast hjá sér í sumar. Brynjar Gauti kemur með þessa margumtöluðu reynslu og leiðtogahæfni sem sárlega þurfti inn í Fjölni. Fjölnir hefur misst mikið í vetur en gerðu frábærlega með að sækja Brynjar Gauta. Það mun verða alvöru verkefni sem bíður hans í sumar að reyna binda saman vörnina en hann er klárlega einn af bestu varnarmönnum deildarinnar. Máni átti sitt besta tímabil á ferlinum í markaskorun og var meðal markahæstu manna á síðasta tímabili. Hann verður að halda áfram frá því sem frá var horfið ef ekki á illa að fara fyrir Fjölnismönnum. Verður áhugavert að sjá hann í sumar í breyttu Fjölnisliði en það mun mikið mæða á honum að skila framlagi.
Gaman að fylgjast með: Rafael Máni Þrastarson
Ungur strákur sem var að raða inn mörkum fyrir Vængi Júpíters á síðasta tímabili áður en hann var kallaður aftur í Fjölni. Skoraði tvö mörk í sex leikjum eftir að hann var kallaður til baka. Það eru miklar vonir bundnar við þennan strák að hann nái að stíga upp. Fjölnir gert ótrúlega vel með unga leikmenn síðustu ár og tippa margir á að Rafael Máni sé næstur í röðinni upp úr frábæru unglingastarfi þarna í Grafarvoginum.
Komnir:
Axel Freyr Ívarsson frá Kára
Árni Elvar Árnason frá Þór
Brynjar Gauti Guðjónsson frá Fram
Hilmar Elís Hilmarsson frá ÍA (á láni)
Egill Otti Vilhjálmsson frá Fram (á láni)
Snorri Þór Stefánsson frá KFG
Farnir:
Guðmundur Karl Guðmundsson hættur
Júlíus Mar Júlíusson í KR
Halldór Snær Georgsson í KR
Baldvin Þór Berndsen í ÍA
Axel Freyr Harðarson í Leikni
Óliver Dagur Thorlacius í KR
Jónatan Guðni Arnarsson til Norrköping
Dagur Ingi Axelsson í HK
Dagur Austmann Hilmarsson hættur
Sigurvin Reynisson hættur

Fyrstu þrír leikir Fjölnis:
2. maí, Fjölnir - Keflavík (Fjölnisvöllur)
9. maí, Grindavík - Fjölnir (Stakkavíkurvöllur)
16. maí, Fjölnir - Fylkir (Fjölnisvöllur)
Athugasemdir