
„Mér fannst við gera þetta mjög fagmannlega. Vissum að ef við værum kærulausir þá gætu þeir alltaf skorað og þá yrði þetta erfiður leikur. Þeir áttu alveg sína kafla og voru hættulegir þannig að við gerðum þetta bara fagmannlega og unnum þetta nokkuð þægilega. “ Sagði Ingvar Jónsson markvörður Víkinga um sína sýn á leikinn úr markinu eftir 3-0 sigur Víkinga á Sindra í 32 liða úrslitum Mjólkurbikarsins í kvöld.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 3 - 0 Sindri
Ingvar sem varð fyrir því óláni að viðbeinsbrotna í leik gegn Keflavík í Lengjubikarnum 19. mars síðastliðinn var að spila sinn fyrsta alvöru leik síðan hann sneri aftur. Var að gott að fá mínútur loksins?
„Já mér líður eins og það sé ár síðan ég spilaði fótboltaleik síðast. Þetta gerist á versta tíma rétt fyrir mót en svona er þetta meiðsli fylgja þessu og maður verður bara að vinna vel og koma sterkur til baka. “
Í fjarveru Ingvars hefur Þórður Ingason varið mark Víkinga og gert það af prýði og ljóst að samkeppnin um markvarðarstöðuna í Víkinni er hörð. Er Ingvar klár í samkeppnina?
„Að sjálfsögðu. Doddi hefur verið frábær og liðið allt hefur verið frábært í sumar. Mitt hlutverk núna í byrjun móts var bara að styðja við bakið á Dodda og gera allt sem ég get til að hafa hann sem bestann. En nú er auðvitað samkeppni um allar stöður í liðinu og auðvitað vil ég fara að spila.“
Sagði Ingvar en allt viðtalið má sjá hér að ofan.
Athugasemdir