Eigendur Arsenal eru búnir að opna veskið og er liðið að undirbúa tilboð í nokkra leikmenn en þetta segja þeir Fabrizio Romano, David Ornstein og ensku miðlarnir BBC og Sky.
Arsenal gekk frá kaupum á öðrum leikmanni sínum í sumarglugganum í dag er það staðfesti komu spænska miðvallarleikmannsins Martin Zubimendi.
Nokkrum dögum áður hafði félagið tilkynnt komu Kepa Arrizabalaga frá Chelsea, en þessir tveir eru bara byrjunin hjá Lundúnafélaginu sem ætlar sér að vera í titilbaráttu á komandi tímabili.
Ornstein og Romano segja báðir að sænski framherjinn Viktor Gyökeres sé búinn að samþykkja fimm ára samning við Arsenal og að félögin muni nú ræða saman um kaupverð á næstu dögum. Mikil bjartsýni er að geta klárað kaupin á næstu tveimur vikum.
Danski varnarsinnaði miðjumaðurinn Christian Norgaard er að koma frá Brentford fyrir tæpar 15 milljónir punda. Kemur hann til með að fylla í skarðið sem Jorginho skildi eftir sig er hann hélt aftur til Brasilíu.
Í morgun sagði þá Romano frá því að Arsenal væri að undirbúa tilboð í Noni Madueke, vængmann Chelsea.
Arsenal hefur náð samkomulagi við Madueke um kaup og kjör, og er því næst á dagskrá að senda inn tilboð.
Svakaleg keyrsla hjá Arsenal á markaðnum og margir mjög svo áhugaverðir leikmenn.
Arsenal hafnaði í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili og datt þá út í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu, en það mátti samt sjá að liðið er á mikilli uppleið og miðað við þessi kaup er alveg ljóst að liðið ætlar að gera atlögu að Englandsmeistaratitlinum.
Athugasemdir