
„Þetta er stórkostlegt í alla staði. Sviss er frábært land og að fá þetta tækifæri að fylgja stelpunum okkar eftir er einstakt. Það er alltaf gaman að fylgja íslensku landsliðunum en það er eitthvað í loftinu. Horfðu bara yfir þetta allt saman," sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra Íslands, við Fótbolta.net í dag.
Hún er mætt til Sviss að styðja stelpurnar okkar á EM. Í kvöld er leikur númer tvö gegn heimakonum í Sviss og er mikilvægt að ná í góð úrslit þar til að eiga möguleika á því að fara áfram.
Hún er mætt til Sviss að styðja stelpurnar okkar á EM. Í kvöld er leikur númer tvö gegn heimakonum í Sviss og er mikilvægt að ná í góð úrslit þar til að eiga möguleika á því að fara áfram.
„Það er eftirvænting að sjá hvernig leikurinn fer en ég er full bjartsýni," sagði Þorgerður. „Það er stórkostlegt að sjá hvernig stelpurnar eru að tækla ýmsa hluti. Auðvitað er þetta brekka en það er þannig sem þær verða bara sterkari."
„Ég held að það mættu margir fleiri taka þær til fyrirmyndar."
Þorgerður segist stressuð fyrir leiknum, eins og alltaf fyrir leiki Íslands. Hún segist þó nokkuð sannfærð um að þær vinni leikinn.
„Neglurnar eru búnar. Það er iðulega þannig þegar Ísland er að keppa, hvort sem það er í handbolta eða fótbolta. Þetta verður góður dagur. Það er fínt veðrið, aðeins að kólna. Allt umhverfið er alveg eins okkur í hag. Ég var að heyra það áðan að þetta er í fyrsta sinn sem Evrópumót kvenna er að skila hagnaði og skipulagið hér er allt til fyrirmyndar. Maður finnur það þegar maður kemur á svæðið að það er verið að gera þetta eins og best gerist. Þetta er til mikillar fyrirmyndar en fyrst og síðast verða stelpurnar alltaf stelpurnar okkar," sagði Þorgerður.
„Þær eru kveikjan að svo mörgu góðu hjá alls konar fólki. Ég hvet þær til dáða, áfram Ísland."
Það verða 30 þúsund manns á vellinum í kvöld en þar af eru 2000 Íslendingar. Hvernig mun ganga fyrir okkar fólk að hafa vinninginn í stúkunni í kvöld?
„Ég hef alveg upplifað það verra. Ég held að þær finni að við erum með þeim af lífi og sál. Að senda þannig strauma til þeirra mun hjálpa þeim langt. Þær eru hæfileikaríkar og eru með andlega og líkamlegu hliðina í toppstandi. Þær eru einfaldlega bestar," sagði Þorgerður Katrín.
Allt viðtalið má sjá í spilaranum hér að ofan
Athugasemdir