Man Utd ætlar að bjóða Calvert-Lewin samning - Al Nassr á eftir Rodrygo - Chelsea fylgist með stöðu Nwaneri
   sun 06. júlí 2025 19:00
Ívan Guðjón Baldursson
Mikil óvissa hindrandi fyrir Crystal Palace
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Það ríkir mikil óvissa um framtíðina innan herbúða Crystal Palace þar sem enn er óljóst hvort félagið muni taka þátt í Evrópudeildinni í haust eða ekki.

Crystal Palace vann enska bikarinn afar óvænt eftir sigur gegn Manchester City í úrslitaleiknum og fékk úthlutað sæti í Evrópudeildinni. Það sæti er hins vegar í hættu eftir að Lyon tryggði sér einnig sæti í keppninni.

Það er vegna þess að John Textor, meirihlutaeigandi í Lyon, átti um 43% hlut í Palace þar til fyrir skömmu. Félög undir sama eignarhaldi mega ekki taka þátt í sömu keppni á vegum UEFA eða FIFA. Lyon fær þó forgang á þátttökurétti útaf því að liðið endaði hærra heldur en Palace í deildarkeppni á síðustu leiktíð.

Textor hafði lengi reynt að selja hlut sinn í Palace og tókst það loksins fyrr í sumar, þó að hann hafi einungis haft tíma til 1. mars samkvæmt reglum UEFA. Söluferlið dróst á langinn og nú bíður Palace eftir niðurstöðu frá UEFA sem er með málið til skoðunar.

Mögulegt er að UEFA segi eigendaskiptin hafa átt sér stað alltof seint til að veita Crystal Palace þátttökurétt í Evrópudeildinni, en það er einnig mögulegt að UEFA samþykki eigendaskiptin og hleypi báðum félögum inn í keppnina.

Þá er einnig mögulegt að Lyon fái ekki að taka þátt í Evrópudeildinni vegna brota á fjármálareglum, en félagið var dæmt niður um deild í Frakklandi vegna brota sinna.

Á meðan þetta óvissuástand ríkir er mjög erfitt fyrir Crystal Palace að semja við leikmenn sína og reyna að fá nýja menn inn til félagsins.

Leikmenn Palace mæta til æfinga á miðvikudaginn og bíða spenntir eftir niðurstöðu í máli UEFA.

Palace vill styrkja hópinn sinn í sumar og halda á sama tíma lykilmönnum hjá félaginu, en Eberechi Eze, Marc Guéhi og Jean-Philippe Mateta eru allir eftirsóttir.

Þátttaka í Evrópudeildinni myndi hjálpa félaginu að halda í lykilmenn liðsins og sannfæra nýja leikmenn um að koma.
Athugasemdir
banner
banner