Ítalska félagið Como er í stórsókn í sumar og hefur nú þegar fest kaup á fimm nýjum leikmönnum. Auk þeirra eru fleiri spennandi fótboltamenn á leiðinni inn til félagsins.
Como er búið að staðfesta komu þriggja nýrra leikmanna eftir félagaskipti Martin Baturina og Álex Valle í júní.
Jesús Rodríguez kemur úr röðum Real Betis og kostar um 27 milljónir evra. Hann er 19 ára kantmaður sem var orðaður við Aston Villa fyrr í sumar en verðmiðinn fældi enska félagið frá.
Rodríguez leikur á vinstri kanti að upplagi en getur einnig spilað hægra megin. Hann gerir fimm ára samning við Como eftir að hafa komið að 5 mörkum í 32 leikjum á síðustu leiktíð með Betis.
Hann er ekki eini nítján ára kantmaður sem Como hefur krækt í á síðustu dögum vegna þess að Jayden Addai er kominn til félagsins úr röðum AZ Alkmaar í Hollandi.
Addai kostar um 15 milljónir evra og gerir fimm ára samning eins og Rodríguez. Addai kom að fjórum mörkum í 23 leikjum með AZ á síðustu leiktíð.
Rodríguez er með 12 landsleiki að baki fyrir U21 og U19 lið Spánar á meðan Addai hefur leikið 3 landsleiki fyrir U19 lið Hollands.
Auk þeirra hefur Como einnig staðfest kaup á brasilíska varnarmanninum Fellipe Jack, sem er einnig 19 ára.
Jack lék á láni hjá Como í fyrra og þykir efnilegur miðvörður. Hann lék tvo landsleiki fyrir U17 lið Brasilíu og er með einn leik að baki fyrir U20 landslið Ítalíu.
Jack kemur úr röðum Palmeiras í heimalandinu og kostar ekki nema tvær milljónir evra.
Como er að leita að fleiri leikmönnum til að styrkja hópinn og er komið langt í viðræðum við spænska landsliðsfyrirliðann Álvaro Morata. Þá hefur Andreas Schjelderup einnig verið orðaður við félagaskipti frá Benfica.
Athugasemdir