
„Það er bara ofsalega gaman," segir goðsögnin Guðrún Sæmundsdóttir þegar hún er spurð að því hvernig sé að vera mætt til Sviss að styðja íslenska landsliðið.
Hún er komin hér út ásamt fjölskyldu sinni að styðja Ísland á EM. Hún á dóttur í liðinu, Hlín Eiríksdóttur.
Hún er komin hér út ásamt fjölskyldu sinni að styðja Ísland á EM. Hún á dóttur í liðinu, Hlín Eiríksdóttur.
Hún segir það stressandi að fylgjast með dóttur sinni spila fótbolta úr stúkunni.
„Mér finnst það pínu erfitt. Ég held að það sé erfiðara fyrir mig að horfa á börnin mín en þegar ég var sjálf að spila," segir Guðrún. „Það er svakalegt stress, mér finnst þetta virkilega erfitt."
Það er leikur gegn heimakonum í Sviss í kvöld.
„Ég er alveg sannfærð um að við séum að fara að vinna þetta. Ég hef sjálf oft spilað á móti Sviss og hef aldrei tapað á móti þeim," sagði Guðrún.
Svakalega gaman að horfa á hana elta sína drauma
Hlín tók nýverið skrefið í ensku úrvalsdeildina þar sem hún spilar með Leicester.
„Mér finnst svakalega gaman að horfa á hana elta sína drauma. Mér finnst þetta bara frábært," sagði Guðrún en hún á fleiri dætur sem eru í fótbolta, þar á meðal Örnu Eiríksdóttur sem var nálægt landsliðinu fyrir þetta mót.
Fær Hlín öll sín fótboltagen frá mömmu sinni?
„Nei nei, ætli hún fái ekki dugnaðinn frá pabba sínum og fótboltagenin frá mömmu sinni?" sagði Guðrún en allt viðtalið við hana má sjá í spilaranum hér að ofan. Þar ræðir hún meðal annars um þættina Systraslag þar sem hún sló í gegn.
Athugasemdir