Barcelona vill Díaz frá Liverpool - Úlfarnir skoða markverði - City til í að hlusta á tilboð í Grealish
   þri 24. ágúst 2021 11:18
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Bílslysið haft mikil áhrif á feril Sölva - „Hefði viljað sjá hann í enska"
Sölvi Geir Ottesen.
Sölvi Geir Ottesen.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sölvi með Kjartan Henry í gæslu.
Sölvi með Kjartan Henry í gæslu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Varnarmaðurinn Sölvi Geir Ottesen var gríðarlega mikilvægur fyrir lið Víkinga í toppslag í Pepsi Max-deildinni gegn Val á sunnudag.

Sölvi Geir átti magnaða björgun seint í seinni hálfleiknum. Víkingur leiddi 2-0 í hálfleik en Valsmenn mættu aðeins líflegri til leiks í seinni hálfleik.

Gestirnir fundu ekki alveg leiðina að markinu, þangað til á 82. mínútu. Þá virtust þeir vera að skora en Sölvi Geir fórnaði höfði sínu til að koma í veg fyrir mark.

„Þetta gerist rosalega hratt, ég dett inn í markið og svo þegar ég lít upp að þá sé ég boltann á línunni og menn að koma hlaupandi. Hefði ég fengið aðeins meiri tíma til að hugsa hefði sennilega ekki sett hausinn í þetta en það gafst voða lítill tími til að hugsa þarna þannig að ég fleygði hausnum fyrir boltann og sem betur fer kom ég í veg fyrir mark og ekki miklar skemmdir á sjálfum mér," sagði Sölvi eftir leik.

Íþróttamaðurinn Tómas Þór Þórðarson benti á það eftir leikinn að Sölvi Geir hefði ungur að árum lent í slæmu bílslysi sem hefur haft mikil áhrif á ferilinn.

„Skulum ekki gleyma að Sölvi Geir lenti í flugslysi á bíl 18 ára en saumaði samt saman trylltan atvinnumannaferil með ónýtt bak og bar eitt sinn fyrirliðaband landsliðsins. Hann hefur verið stríðsmaður frá því ég tók á móti honum í Breiðó '95. Sterkasti gaur sem ég hef kynnst," skrifaði Tómas.

Sölvi ræddi við Guðjón Guðmundsson á Vísi um bílslysið. „Það var einhver sem var að vaka yfir mér á þessu augnabliki, það er nokkuð ljóst," sagði Sölvi Geir.

„Þetta hefur bara haft áhrif á bakið mitt í gegnum minn feril. Ég er sennilega búinn að missa af 40 til 50 prósent af leikjum sem ég hefði annars spilað í gegnum ferilinn út af bakmeiðslum. Þannig að þetta hefur haft gríðarleg áhrif á ferilinn allavega."

Kári Árnason, liðsfélagi Sölva í Víkingi, var í viðtali í Chess After Dark á dögunum. Þar spjallaði hann um liðsfélaga sinn í vörninni.

„Hann á flottan feril. Hann spilar ekki nóg miðað við hvað hann var lengi úti. Það segir ákveðna sögu, hann var mikið meiddur. Ég hefði viljað sjá hann í enska boltanum. Þeir hefðu elskað hann. Ég fatta ekki að enginn hafi tekið hann. Sá bolti hefði hentað Sölva fullkomlega," sagði Kári.

Þrátt fyrir þetta bílslys hefur Sölvi átt glæstan feril þar sem hann hefur meðal annars spilað 28 A-landsleiki.

Sölvi ætlar að leggja skóna á hilluna eftir tímabilið og vonast hann til að enda með titli hjá Víkingum. Staðan í deildinni er mjög spennandi.




Athugasemdir
banner
banner
banner
banner