„Þetta er ótrúlega jafnt og svona smá "tense" leikur uppá hvort liðið ætlar að vera með í baráttunni um topp 6 og ef við hefðum tapað í dag, þá hefðum við getað verið í fallsæti eftir umferðina. En þetta er bara ótrúlega jafnt og virkilega ánægður með góðan sigur og flotta frammistöðu. Ég hefði viljað getað gert aðeins meira í seinni hálfleik, ekki bara að halda þessu heim heldur setja þriðja markið á þá,'' sagði Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA, eftir 2-0 sigur sinna manna á Fram í Bestu-deild karla í kvöld. Með sigrinum fer KA upp fyrir Fram og kemur sér í betri stöðu til þess að gera atlögu að því að vera í efri hluta deildarinnar þegar henni er skipt upp.
Lestu um leikinn: KA 2 - 0 Fram
Það var ekki að sjá að sú upplifun að missa forystu í þrígang gegn Aftureldingu í síðasta leik hefði setið mikið í mönnum og Hallgrímur er ánægður með staðinn sem að liðið er á.
„Við erum orðnir mjög flottir og höfum ekki tapað í langan tíma. Búnir að vinna og gera jafntefli einhverja sjö leiki í röð, þannig að liðið er gott. Það er gott jafnvægi í hópnum og þeir sem að koma inná í leiknum skipta líka sköpum, við erum með alla heila og liðið er bara á góðum stað.''
Hallgrímur sagði að tapið gegn Fram í Mjólkurbikarnum fyrr í sumar hefði verið lærdómsríkt og að þeir hefðu nýtt sér það í dag. Sömuleiðis fór hann í alveg glimrandi góða og glænýja myndlíkingu!
„Þeir fóru illa með okkur hérna í bikarnum og við lærðum aðeins af því. Svo eins og Grímsi og Birnir, þeir fundu góð svæði og voru hljóðlátir. Vorum að grínast með að Grímsi væri svona eins og brandugla, væri þarna og það veit enginn af honum en svo allt í einu dúkkar hann upp og gerir eitthvað!''
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.