Erik ten Hag, stjóri Manchester United, mun ekki þrauka út þetta tímabil, en þetta segir Jose Enrique, fyrrum leikmaður Liverpool, í viðtali við Grosvener Sport.
Ten Hag náði ágætis árangri með United á fyrsta tímabili sínu en liðið vann deildabikarinn og komst í úrslit enska bikarsins.
Byrjunin á þessari leiktíð hefur verið langt undir væntingum. Liðið hefur tapað níu af sautján leikjum sínum í öllum keppnum og eru ensku blöðin þegar farin að velta fyrir sér hvort Ten Hag sitji í heitu sæti.
Enrique, sem spilaði með Liverpool frá 2011 til 2016, telur að hann nái ekki að klára tímabilið með United.
„Ég held að Erik ten Hag muni ekki klára tímabilið hjá Manchester United. Ef félagið ákveður að halda honum verður það af því það vill halda sig við þetta langtíma verkefni sem er í gangi og trúa því að hann geti snúið við blaðinu. Margir leikmenn innan félagsins hafa nú þegar snúið baki við honum. Varane hefur gert það og þá hefur Ten Hag gert nokkra hluti í fortíðinni gegn þeim Jadon Sancho, Antony og Cristiano Ronaldo. Öll þessi atvik hafa komið upp á stuttum tíma enda hefur hann ekki verið lengi hjá félaginu.“
„Ég held að hann sé búinn að missa klefann. Ég veit ekki hversu lengi United mun halda honum, en ég held alla vega að liðið eigi engan möguleika á að enda meðal fjögurra efstu. Leikmennirnir eiga samt að standa sig á vellinum, en það er staðreynd að þú spilar betur ef þér líkar vel við stjórann. Þú vilt vinna fyrir hann en auðvitað líka fyrir þig sjálfan og stuðningsmennina,“ sagði Enrique.
Athugasemdir