þri 25. janúar 2022 19:47
Brynjar Ingi Erluson
Framtíð Jóns Dags óráðin - „Erfitt að svara þessari spurningu"
Jón Dagur Þorsteinsson
Jón Dagur Þorsteinsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslenski landsliðsmaðurinn Jón Dagur Þorsteinsson segir að framtíðin sé enn óráðin og að allt getur gerst í fótboltanum en samningur hans við danska félagið AGF rennur út í sumar.

Jón Dagur kom eins og stormsveipur inn í lið AGF frá Fulham árið 2019 og hefur án nokkurs vafa verið einn besti leikmaður dönsku úrvalsdeildarinnar síðustu þrjú ár.

Franska B-deildarliðið Nimes sýndi honum mikinn áhuga síðasta sumar og lagði fram tilboð í hann en því tilboði var hafnað.

Nú á AGF hættu á að missa Jón Dag frá sér á frjálsri sölu eftir að það slitnaði upp úr viðræðum undir lok ársins. Danska blaðið Aarhus Stiftstidende spurði hann út í framtíðina og hvort það væri eitthvað ráðið en svo er ekki.

„Það er erfitt fyrir mig að svara þessari spurningu því ég mun örugglega bara gefa þér leiðinlegt svar eins og allt getur gerst í fótbolta, en þannig er það eiginlega, því maður veit aldrei. Ég gæti vaknað á morgun með fimm ára samning á borðinu," sagði Jón Dagur við Aarhus Stifstidende.

Ekstra Bladet greindi frá því á dögunum að AGF ætlaði ekki að selja hann ódýrt í þessum mánuði þrátt fyrir að lítið væri eftir af samningnum en hann er falur fyrir um það bil 750 þúsund evrur.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner