Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   þri 25. febrúar 2020 12:00
Fótbolti.net
Meistaraspáin - Risaslagir á Englandi og Ítalíu
Chelsea fær Bayern Munchen í heimsókn.
Chelsea fær Bayern Munchen í heimsókn.
Mynd: Getty Images
Hvað gerir Barcelona gegn Napoli?
Hvað gerir Barcelona gegn Napoli?
Mynd: Getty Images
Kristján Guðmundsson, þjálfari kvennaliðs Stjörnunnar, og Óli Stefán Flóventsson, þjálfari karlaliðs KA, mæta fréttamönnum Fótbolta.net í léttum leik í tengslum við útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar.

Spáð er um úrslit allra leikja í útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar. Fyrir hárréttar lokatölur fást 3 stig en 1 stig ef rétt tákn er á leiknum.

Kristján Guðmundsson

Chelsea 1 - 3 Bayern Munchen
Öruggur sigur í opnum leik sem gefur okkur að minnsta kosti fjögur mörk. Heilt í gegnum liðin þá er Bayern liðið mun sterkara lið með Lewandowski í góðum gír. Spurning hvort Giroud sé frelsinu feginn og haldi áfram að skora.

Napoli 2 - 1 Barcelona
Napoli búnir að finna taktinn undir stjórn Gattuso á meðan Barcelona hefur verið að hiksta. Napoli sterkir í riðlakeppninni sem gefur þó ekkert þegar komið er í útsláttinn. Þó spái ég þeim sigri á heimavelli gegn ósannfærandi Spánverjunum. Hvað gerir Braithwaite?

Óli Stefán Flóventsson

Chelsea 1- 3 Bayern Munchen
Held að þarna verði skorað mikið og því miður fyrir Chelsea þá verður það Bayern sem verður í gírnum. Þeir eiga einn mesta markaskorara nútímans í Robert Lewandowski sem setur tvö og Gnabry eitt 1-3 sigri. Minn maður Oliver Giroud skorar svo fyrir Chelsea og heldur einvíginu lifandi.

Napoli 1 - 2 Barcelona
Þetta er nokkuð snúin viðureign. Bæði lið hafa verið á ágætis róli þar sem þau hafa unnið fjóra af síðustu fimm leikjum sínum. Þar sem Koulibaly er meiddur í þessum leik þá held ég að Barcelona vinni en tæpt verður það. Ég ætla að segja 1-2 þar sem Insigne kemur Napoli yfir snemma. Messi er kominn í gang og hann jafnar úr aukaspyrnu en það verður svo Griezmann sem tryggir tæpan sigur í overtime.

Magnús Már Einarsson

Chelsea 1 - 1 Bayern Munchen
Strákarnir hans Frank Lampard eiga erfitt verkefni fyrir höndum gegn þýsku meisturunum. Chelsea fer þó með jafntefli til Þýskalands eftir leikinn í kvöld. Bayern verður sterkari aðilinn og Robert Lewandowski skorar snemma leiks. Í síðari hálfleik ná heimamenn að jafna eftir hornspyrnu. Útivallarmarkið fer hins vegar langt með að klára einvígið fyrir Bayern.

Napoli 0 - 2 Barcelona
Lionel Messi hitaði upp með sýningu gegn Eibar á laugardaginn og hann verður í stuði í kvöld. Argentínumaðurinn skorar eitt og leggur upp annað. Gott lið Napoli mun eiga engin svör að þessu sinni. Barcelona fer með þægilegt forskot í síðari leikinn og í góðum gír inn í El Clasico á sunnudaginn.

Staðan í heildarkeppninni:
Fótbolti.net - 5 stig
Kristján Guðmundsson - 2 stig
Óli Stefán Flóventsson - 1 stig
Athugasemdir
banner
banner
banner