Liverpool reynir aftur við Zubimendi - Isak til Arsenal - Wirtz á óskalista Bayern
   fös 25. febrúar 2022 18:00
Aðsendir pistlar
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Af hverju sitjum við eftir á unglingastiginu?
Jón Páll Pálmason skrifar
Aðsendir pistlar
Aðsendir pistlar
Jón Páll Pálmason er greinarhöfundur.
Jón Páll Pálmason er greinarhöfundur.
Mynd: Tómas Freyr Kristjánsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Það er þekkt umræða á Íslandi að barnastarfið hjá knattspyrnuhreyfingunni sé á heimsmælikvarða. Ég ætla ekki að dæma um það hér að öðru leyti en að það er morgunljóst að börn á Íslandi fá að æfa og spila við góðar aðstæður á flestum stöðum. Fótboltamótin sem félögin halda eru stórkostleg ævintýri, innan vallar sem utan, fyrir krakkana og foreldra þeirra.


Í síðustu viku skrifaði ég stuttan pistil um hvernig ég sé mögulegt að knattspyrnusambandið leiði barnastarfið í ennþá betra horf með breytingu á flokka- og keppnisfyrirkomulagi barna.

Í pistlinum kom ég m.a. inn á það að breyta ætti mótafyrirkomulaginu þannig að unglingar myndu byrja að leika 11 gegn 11 í U-15 ára liðum og einnig yrði spilað í U-17 ára liðum og svo U-19 ára liðum.

Það er á þessum aldri sem þjálfarar hafa í ár og áratugi talað um að unglingarnir okkar sitji eftir. Ég er á því að þegar komið er í U-15 og U-17 ára liðin þurfi að gera byltingu í leikjafyrirkomulagi KSÍ og í hugsun félaganna til starfsins. Það þarf að viðurkenna og skýra að félögin í landinu reka ekki bara þjónustu þar sem allir mega vera með heldur einnig afrekslínu.

Það er ekkert mál að halda úti þeirri þjónustu að allir fái að vera með líkt og fyrirkomulagið er í dag meðfram vel skipulagðri afreksstefnu. Það er þó að mínu mati ljóst að það þarf að stofna afreksdeild KSÍ hvar félögin þurfa að standast einhver ákveðin viðmið til að fá þátttökurétt í deildinni.

Þessi viðmið ættu yfirmaður knattspyrnumála hjá KSÍ, yfirþjálfarar félaganna, landsliðsþjálfarar og yfirmenn knattspyrnumála í hreyfingunni að setja. Ég sé þó fyrir mér að til að félög fái að taka þátt í afreksdeild KSÍ þurfi félögin að standast til dæmis þessi viðmið:

Þjálfarar U-15 og U-17 ára liðanna verði í fullu starfi.

Félögin eru með yfirþjálfara/yfirmann knattspyrnumála í fullu starfi

Æfingahópar liðanna sem taka þátt í afreksdeildunum telja 25 leikmenn að hámarki.

Félögin eru með sjúkraþjálfara/markmannsþjálfara/styrktarþjálfara í stórum hlutastörfum (50%) hjá félögunum.

Krafa um ákveðna umgjörð á leikdegi.

Liðin þurfa að senda a.m.k. tvö dómaratríó í deildina sem standast ákveðinn gæðaviðmið

…..

Fastir leikdagar yrðu við lýði (laugardagar) þar sem að U15-17 liðin myndu leika samdægurs gegn sömu liðum. Þannig myndu Fjölnir og KR spila á sama degi í U15 & U17 þar sem 17 ára liðin myndu spila beint á eftir U15 ára liðunum.

Með þeirri breytingu að vera með U17 ára deild breytist U19 deildin sem í dag er 2.fl.kk á þann veg að tveir árgangar í stað þriggja, manna flokkinn. Það þarf að auðvelda félögunum að gefa þessum leikmönnum færi á að spila fótbolta í meistaraflokki því gæði leikjanna í 2.fl í dag eru oft ekki nægilega mikil fyrir bestu leikmennina. Það eru margar leiðir til þess að gefa bestu ungu leikmönnunum okkar betri möguleika á að leika í meistaraflokki til að bæta sig.

Leikmenn sem ekki byrja síðasta deildarleik með meistaraflokki liðanna gætu spilað með venslafélagi í næstu umferð. Þannig gætu leikmenn á varamannabekk KR leikið með KV, varamenn í Breiðablik gætu spilað með Augnablik o.þ.h. Leikmenn U19 ára liðanna gætu verið í þessum hópi.

Félögin geta sent til leiks varalið. FH gæti þá sent til leiks FH2 í deildarkeppni þar sem varamenn í umferðinni á undan geta leikið. Þetta fyrirkomulag er vel þekkt á Norðurlöndunum þar sem Brann 2 leikur t.d í D deild og Rosenborg 2 í C deild í Noregi.

Hægt væri að leyfa þrjá eldri leikmenn í U19 ára mótinu. Þannig gætu t.d 25 ára gamlir leikmenn sem ekki byrjuðu síðasta deildarleik meistaraflokks spilað með 2.fl og þar af leiðandi aukið gæði leiksins. Þetta fyrirkomulag myndi hjálpa liðum á landsbyggðinni mikið.

Sænska leiðin er svo áhugaverð. Þar getur leikmaður félags spilað með þremur venslafélögum! Í veruleika okkar Íslendinga myndi það þá þýða að leikmaður í KA sem sæti á bekknum gæti verið á lista hjá Völsungi, Dalvík og Magna og spilað með þeim ef hann ekki myndi byrja inn á í síðasta deildarleik KA. Verulega framandi hugmynd þar sem leikmaðurinn er í öndvegi. Konur & menn bæta sig með því að spila krefjandi leiki.

Það á það sama við um þessar tillögur líkt og þegar setja á viðmið afreksdeilda KSÍ að fagmennirnir í hreyfingunni eiga að koma í ríkara mæli að ákvarðanatökunni. Yfirmaður knattspyrnumála KSÍ, félaganna og yfirþjálfarar eru best til þess fallnir að að laga og bæta mótafyrirkomulagið okkar ásamt landsliðsþjálfunum okkar.

Ég treysti mér til þess að leiða þessa aðila saman. Þess vegna býð ég mig fram til stjórnarsetu í Laugardalnum.

Ég hef undanfarna daga fundað með fyrrverandi og núverandi landsliðsþjálfurum Íslands. Ég hef einnig átt fundi með leikmannasamtökunum ásamt því að hafa verið í sambandi við stjórnarmenn liða á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Að lokum hef ég talað við dómarastéttina!

Ég tel mig vera frábæran fulltrúa í stjórn knattspyrnusambandsins fótboltanum til heilla.

Með fótboltakveðju,
Jón Páll


Athugasemdir
banner
banner
banner