Á miðvikudaginn verður landsliðshópur Íslands fyrir komandi útileiki gegn Aserbaídsjan og Úkraínu í síðustu tveimur leikjum riðilsins í undankeppni HM opinberaður.
Ísland getur tryggt annað sætið með sigri í báðum þessum leikjum eða með sigri gegn Aserbaídsjan og jafntefli gegn Úkraínu, ef við gefum okkur það að Úkraína vinni ekki Frakkland á útivelli. Þá gæti tap eða jafntefli gegn Aserbaídsjan og sigur gegn Úkraínu jafnframt tryggt Íslandi annað sætið ef Frakkland vinnur Úkraínu á Prinsavöllum.
Ísland spilar í Bakú fimmtudaginn 13. nóvember og Varsjá sunnudaginn 16. nóvember.
Það verður í hið minnsta ein breyting frá síðasta landsliðshóp sem tapaði gegn Úkraínu og gerði jafntefli við Frakka á Laugardalsvelli. Sævar Atli Magnússon fór meiddur af velli gegn Frakklandi og kom síðar í ljós að hann reif liðþófa í hné.
Landsliðsfyrirliðinn Orri Steinn Óskarsson er ekki byrjaður að spila með Real Sociedad, en hann hefur verið að glíma við meiðsli frá því í byrjun september og hefur ekkert tekið þátt í undankeppni HM. Hann er augljós kostur til að taka stöðu Sævars, en er í kappi við tímann.
Jóhann Berg Guðmundsson var ekki valinn í hópinn í síðasta glugga en hann er fastamaður í liði Al-Dhafra og lagði upp mark í síðasta leik liðsins. Það er spurning hvort að hann sé næsti maður inn fyrir Sævar og spili loks sinn 100. landsleik.
Viktor Bjarki Daðason hefur komið eins og stormsveipur inn í lið FCK í Danmörku en hann hefur komið að fjórum mörkum á innan við 160 mínútum fyrir liðið. Viktor er fæddur árið 2008 og gerir svo sannarlega tilkall í að koma í hópinn.
Stefán Ingi Sigurðarson er á meðal markahæstu manna í norsku Eliteserien með þrettán mörk í 24 leikjum. Það hefur aðeins hægst á honum í markaskorun eftir frábæra byrjun á tímabilinu en hlýtur að vera á blaði hjá landsliðsþjálfaranum.
Gylfi Þór Sigurðsson tímabilið með Víkingum frábærlega og hefur Arnar sagt í viðtölum að hann sé ekki fjarri hópnum. Þá er Eggert Aron Guðmundsson lykilmaður í liði Brann í Noregi ásamt U21 landsliði Íslands og er ekki heldur fjarri hópnum.
Miðjumennirnir Júlíus Magnússon og Kolbeinn Þórðarson gera einnig tilkall í hópinn ef svo færi að Arnar vilji frekar að Gísli Gottskálk Þórðarson spili með U21 árs landsliðinu.
Stefán Teitur Þórðarson hefur lítið komið við sögu með félagsliði sínu, Preston North End, í ensku Championship deildinni. En hann hefur einungis spilað 28 mínútur í síðustu níu leikjum liðsins.
Willum Þór Willumsson var jafnframt ekki í landsliðshóp Íslands í síðasta verkefni vegna meiðsla en hann er enn fjarri góðu gamni og hefur ekkert komið við sögu hjá Birmingham frá því í lok ágúst.
Ef Arnar vill hræra í vörninni þá er Hjörtur Hermannson augljós kostur. Aron Einar kom í staðinn fyrir Hjört í síðasta hóp en Aron kom hvorki við sögu í leiknum gegn Úkraínu né Frakklandi.
Þessum stóru spurningum verður svarað í hádeginu á miðvikudag þegar Arnar Gunnlaugsson opinberar landsliðshópinn.
Hópurinn í síðasta verkefniElías Rafn Ólafsson - FC Midtjylland
Hákon Rafn Valdimarsson - Brentford F.C.
Anton Ari Einarsson - Breiðablik
Logi Tómasson - Samsunspor
Mikael Egill Ellertsson - Genoa CFC
Aron Einar Gunnarsson - Al-Gharafa SC
Daníel Leó Grétarsson - Sonderjyske Fodbold
Sverrir Ingi Ingason - Panathinaikos F.C.
Guðlaugur Victor Pálsson - AC Horsens
Bjarki Steinn Bjarkason - Venezia FC
Gísli Gottskálk Þórðarson - Lech Poznan
Ísak Bergmann Jóhannesson - 1. FC Köln
Andri Fannar Baldursson - Kasimpasa S.K.
Stefán Teitur Þórðarson - Preston North End F.C.
Albert Guðmundsson - ACF Fiorentina
Kristian Nökkvi Hlynsson - FC Twente
Hákon Arnar Haraldsson - LOSC Lille
Þórir Jóhann Helgason - U. S. Lecce
Jón Dagur Þorsteinsson - Hertha BSC
Mikael Neville Anderson - Djurgardens IF Fotboll
Andri Lucas Guðjohnsen - Blackburn Rovers F.C.
Brynjólfur Andersen Willumsson - FC Groningen
Sævar Atli Magnússon - SK Brann
Daníel Tristan Guðjohnsen - Malmö FF



