Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
   lau 25. mars 2023 07:20
Ívan Guðjón Baldursson
Hundruðum Englendinga haldið í rútum á Ítalíu
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images

England heimsótti Ítalíu í fyrstu umferð undankeppni EM 2024 og hafði betur er liðin mættust í Napolí. Þetta reyndist fyrsti sigur Englands á útivelli á Ítalíu í rúm 60 ár.


Stuðningsmenn Englendinga voru sáttir með sigurinn en þeir voru langt frá því að vera ánægðir með meðhöndlunina sem þeir fengu fyrir og eftir leik.

Það var ekkert viðvörunarstig fyrir þessa viðureign fyrr en stuðningsmaður enska landsliðsins dró upp ljótan borða, nokkrum klukkustundum fyrir leik, sem gerði grín að andláti Diego Armando Maradona, sem er goðsögn innan herbúða Napoli og víðar. Englendingar tóku myndir af borðanum sem dreifðust hratt um samfélagsmiðla við litla hrifningu Ítalanna.

Skemmst er frá því að segja að það er ekki sniðugt að draga upp svona borða í Napolí þar sem heimamenn taka þessari tegund af ögrun af mikilli alvöru. Stuðningsmannahópur Napoli hótaði alvarlegum barsmíðum í kjölfarið af myndbirtingunni og því var ákveðið að læsa stuðningsmenn Englands í rútunum sínum til að forða þeim frá mögulegum barsmíðum.

Hundruðir enskra stuðningsmanna þurftu því að dúsa í rútunum sínum í rúma klukkustund fyrir upphafsflautið, þar sem breyta þurfti akstursleiðinni til að forðast árásir á leiðinni að vellinum.

Eftir leik var ítölsku stuðningsmönnunum heitt í hamsi en þeir fengu ekki tækifæri til að ráðast á Englendingana. Ensku stuðningsmönnunum var haldið á áhorfendapöllunum í rétt tæpar tvær klukkustundir eftir lokaflautið. Þeim var loks hleypt út þegar Ítalarnir voru farnir.

Enska knattspyrnusambandið fordæmdi hegðun enska stuðningsmannsins sem bjó til borðann og var búið að setja hann í leikbann frá leiknum áður en hann hófst. 


Athugasemdir
banner
banner