sun 25. apríl 2021 11:31
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Rúm þrettán ár frá síðasta titli Spurs - Tölfræðin með Pep
Manchester City og Tottenham Hotspur mætast í úrslitaleik Carabao Cup, enska deildabikarsins, í dag. Leikurinn hefst klukkan 15:30 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Tottenham hefur ekki unnið titil í þrettán ár og tæpa tvo mánuði betur. Liðið lyfti einmitt deildabikarnum árið 2008 eftir sigur á Chelsea í framlengdum leik.

Dimitar Berbatov og Jonathan Woodgate skoruðu mörk Tottenham í leiknum. Einungis Aaron Lennon er enn að spila af þeim leikmönnum sem voru í hópnum hjá Tottenham. Lennon spilar með Kayserispor í Tyrklandi. Tom Huddlestone hefur verið án félags frá því hann yfirgaf Derby County síðasta sumar.

Manchester City hefur einokað bikarkeppnirnar á Englandi síðustu ár og hefur unnið þessa keppni í fjögur af síðustu fimm skiptum. City vann Aston Villa í úrslitaleiknum í fyrra.

Pep Guardiola hefur einungis einu sinni tapað í úrslitaleik í bikarkeppni. Hann tapaði gegn Real Madrid í framlengdum leik í úrslitaleik spænska bikarsins árið 2011. Hann hefur unnið þrettán úrslitaleiki.

Í dag mætir hann liði Ryan Mason sem tók við tímabundið af Jose Mourinho síðasta mánudag eftir að Portúgalinn var rekinn.
Athugasemdir
banner
banner
banner