
„Þetta var erfitt. Valsararnir voru góðar og við ekki nógu ákveðnar fannst mér,“ sagði Vanda Sigurgeirsdóttir þjálfari Þróttar í samtali við Fótbolta.net eftir tapið gegn Val. Aðspurð um uppleggið fyrir leikinn svaraði Vanda:
„Við förum í alla leiki til að vinna þannig lagað séð. Við lögðum líka upp að fá ekki á okkur mörk og það gekk vel framan af en svo fóru þau að hrynja inn. Það var náttúrulega 1-0 á 43. mínútu og mér finnst mjög slæmt að við skulum hafa fengið á okkur þessi tvö mörk svona rétt fyrir hálfleik. Við erum bara pínu vængbrotnar. Það verður bara að segjast alveg eins og er. Við erum með svolítið mikið af leikmönnum í meiðslum núna fyrir utan þær sem eru búnar að vera meiddar allan tímann þannig að þetta er svolítið á brattan en ég er stolt af mínu liði. Þær gefast aldrei upp. Þær berjast alveg sama hvað gerist. Ég er mjög ánægð með það.“
Vanda horfir jákvæðum augum til komandi leikja og segir sitt lið ekki hafa lagt árar í bát þrátt fyrir erfiða byrjun.
„Það kemur hlé sem er jákvætt fyrir okkur því þá náum við okkar meiddu leikmönnum á strik og við ætlum að styrkja aðeins liðið. Ég er bara bjartsýn. Við erum alls ekkert búnar að gefast upp og erum alls ekkert hættar. Það er langt því frá. Þetta er bara skemmtilegt. Mér finnst þetta áskorun. Það er nýtt fyrir mig að vera í þessari stöðu sem þjálfari og mér finnst það mjög skemmtilegt. Það er mörgum sem finnst það skrítið en mér finnst þetta mjög gaman og þetta er flott lið sem ég er að þjálfa.“
„Ef ég hefði verið að byrja að þjálfa væri ég líklega grátandi heima uppi í rúmi á hverju kvöldi en það er ekki þannig. Við erum að byggja upp. Við erum með ungt lið og styrktum liðið lítið fyrir þetta mót og það er náttúrulega gríðarlegur munur á Pepsi-deild og 1.deild. Við erum að fá reynslu í okkar Þróttara og það er líka bara jákvætt. Það er ekki alltaf hægt að tjalda bara til einnar nætur.“
Hægt er að horfa á allt viðtalið við Vöndu hér að ofan en hún bætti við eftir að viðtalinu lauk að hún hefði verið sérstaklega ánægð með dómgæsluna í leiknum. Dómaratríóið hefði staðið sig virkilega vel og ætti hrós skilið.
Athugasemdir