Tottenham reynir við Savinho og Paz - Ensk stórlið vilja Rodrygo - Donnarumma með munnlegt samkomulag við City
   mán 25. ágúst 2025 12:35
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
Sammi: Mjög umdeild ráðning á sínum tíma vegna fortíðar hans
Samúel Samúelsson, formaður Vestra.
Samúel Samúelsson, formaður Vestra.
Mynd: Helgi Þór Gunnarsson
Davíð Smári ásamt teymi Vestra.
Davíð Smári ásamt teymi Vestra.
Mynd: Helgi Þór Gunnarsson
„Það voru fleiri Vestramenn á leiknum en íbúafjöldi Ísafjarðar. Maður sá það bara strax í upphituninni í Þrótti að það voru allir mættir. Þetta er eitthvað sem maður mun aldrei gleyma," sagði Samúel Samúelsson, formaður meistaraflokksráðs Vestra, í útvarpsþættinum Fótbolti.net.

Vestri vann 1-0 sigur gegn Val í bikarúrslitaleiknum á föstudagskvöld og Fótbolti.net heyrði hljóðið í Samma daginn eftir. Hann segist hafa verið sigurviss á leikdegi.

„Það er auðvelt að segja þetta núna þegar við erum búnir að vinna en þegar ég vaknaði á leikdegi þá vissi ég að við værum að fara að vinna þennan leik. Það var allt með okkur, við vorum búnir að selja fleiri miða og fólk var að spá okkur jafnvel sigri. Við ætluðum að vinna þá á öllum vígstöðum," segir Samúel.

„Davíð Smári og þjálfarateymið hafa búið til svakalega liðsheild. Það eru einn fyrir alla og allir fyrir einn. Ég gæti ekki verið stoltari af þessum strákum."

Frábær þjálfari og fjölskyldumaður
Davíð Smári hefur gert magnaða hluti á sínum þjálfaraferli og farið upp um allar deildir. Hans stærsta afrek vannst á föstudaginn. Davíð fékk dóma fyrir líkams­á­rásir á yngri árum en hefur heldur betur snúið við blaðinu.

„Þetta hefur gengið ótrúlega vel. Þetta var mjög umdeilt á sínum tíma vegna fortíð Davíðs en hann er frábær manneskja og þegar hann kom vestur þá réðum við hann af fótboltalegum forsendum, ekki vegna þess hver hans fortíð var. Hann hefur sýnt og sannað hver hann er í dag. Hann er frábær þjálfari og fjölskyldumaður sem hefur staðið sig gríðarlega vel. Það verður geggjað fyrir hann að leiða Vestra í Evrópu á næsta ári. Nú er hann bara kominn á það svið," segir Samúel.

Vestri fer í forkeppni Evrópudeildarinnar á næsta ári þar sem íslensk félagslið hafa náð að reisa sig til vegs og virðingar með góðum úrslitum síðustu ár.

„Ég er búinn að tala við Sævar Péturs (framkvæmdastjóra KA) til að kanna hvað kemur inn á bankabókina næsta sumar," segir Samúel í viðtalinu, sem er í upphafi þáttar.

Eftir sigurinn magnaða á föstudag sagði Davíð sjálfur í viðtali:

„Uppgangur liðsins hefur verið gríðarlega mikill, það er ekki út af mér. Ég er fyrir það fyrsta þakklátur stjórn Vestra að þora að ráða mig, ég er þeim ofboðslega þakklátur fyrir það, og hvað það er lagt í liðið. Það eru allir saman í liði að róa í sömu átt," sagði Davíð.
Útvarpsþátturinn - Himnaríki Vestra og helvíti Vals
Athugasemdir
banner
banner