Arsenal og Liverpool eiga möguleika á að fá Vini Jr - Gravenberch fær nýjan samning - Ekitike biðst afsökunar
   fim 25. september 2025 06:00
Brynjar Ingi Erluson
Kaup á Guehi í forgangi hjá Liverpool
Mynd: EPA
Englandsmeistarar Liverpool ætla að gera aðra atlögu að því að fá enska varnarmanninn Marc Guehi frá Crystal Palace í janúarglugganum en þetta kemur fram á TeamTalk.

Liverpool-liðið er mjög þunnskipað í öftustu línu eftir að ítalski varnarmaðurinn Giovanni Leoni sleit krossband í fyrsta leik sínum með liðinu í 2-1 sigrinum á Southampton í enska deildabikarnum í fyrradag.

Ibrahima Konate og Virgil van Dijk eru í aðalhlutverki í vörninni, en ef þeir meiðast á Liverpool aðeins Joe Gomez sem hreinræktaðan varnarmann.

Rhys Williams, sem var gríðarlega mikilvægur tímabilið 2020-2021, er enn á mála hjá Liverpool og var á bekknum í gær, en ferill hans hefur farið hratt niður á við síðustu ár. Hann eyddi síðustu leiktíð á láni hjá Morecambe í ensku D-deildinni og því erfitt að treysta á hann til að leysa af í vörninni.

TeamTalk segir að eftir meiðsli Leoni muni Liverpool reyna allt til þess að kaupa Guehi frá Palace.

Liverpool var nálægt því að ganga frá kaupum á honum undir lok síðasta glugga, en Palace hætti við að selja þar sem félaginu tókst ekki að finna leikmann í hans stað.

Hann mun fást fyrir töluvert lægri upphæð en þá sem Liverpool var reiðubúið að greiða í síðasta mánuði, en nú er samkeppnin orðin töluvert meiri.

Samkvæmt ensku miðlunum hafa Chelsea og Real Madrid einnig áhuga.
Athugasemdir
banner