Man Utd vill Kane - Arsenal hefur áhuga á Yildiz - Villa vill kaupa Sancho
   fim 25. september 2025 17:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Heimild: Sunnlenska 
Öflugt teymi tekur við Árborg (Staðfest) - Náðu frábærum árangri 2010
Njörður, Árni Páll forseti Árborgar, og Adólf.
Njörður, Árni Páll forseti Árborgar, og Adólf.
Mynd: Sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Árborg hefur gengið frá þjálfararáðningu fyrir tímabilið 2026. Adólf Bragason og Njörður Steinarsson taka við liðinu, sem leikur í 4. deild karla.

Þeir taka við af Tomasz Luba sem þjálfaði liðið síðustu fjögur tímabil. Í sumar endaði Árborg í 3. sæti 4. deildar og var liðið þremur stigum frá sæti í 3. deild.

Bæði Adólf og Njörður þekkja vel til Árborgar. Adólf stýrði liðinu 2008-2010 og stýrði liðinu upp í 2. deild 2010 sem er besti árangur í sögu félagsins.

Njörður spilaði með liðinu á sínum tíma, var einmitt lykilmaður í liðinu 2010.

Úr frétt Sunnlenska
Adólf, sem er með UEFA A þjálfara gráðu, stýrði Árborg við góðan orðstír á árunum 2008-2010. Árið 2010 fór Árborg upp í 2. deild sem er besti árangur í sögu félagsins.

Njörður var leikmaður liðsins á árum áður, hann var leikmaður ársins og markahæstur árið 2002 og lék lykilhlutverk í liðinu árið 2010 þegar félagið fór upp í 2. deild. Njörður skoraði eftirminnilegt mark eftir 6 sekúndur árið 2002 í leik Árborgar og KFS en það er annað af tveimur „fljótustu“ mörkum í sögu Íslandsmótsins.

„Það er bara hrikalega gaman að vera kominn aftur í þjálfaragallann. Ég var nú ekki með í mínum plönum að fara aftur að þjálfa en eftir gott spjall við stjórn Árborgar fór verkefnið að kitla. Það er eins og maður losni aldrei við fótboltann ef maður hefur á annað borð verið innvinklaður í hann. Við vonum að við getum unnið þetta verkefni mjög þétt með Selfoss og búið til gott lið byggt á reyndum leikmönnum í bland við leikmenn sem eru að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki. Við tökum við mjög góðu búi af Tomasz Luba og ætlum okkur að halda þeirri góðu vegferð áfram,“ segir Adólf.

„Það er þó nokkuð langt síðan við Addi þjálfuðum saman síðast. Langstærsti hluti leikmanna Árborgarliðsins í dag var hjá okkur í 2. flokki á Selfossi á árunum 2012-2018 og þekkjum við því leikmannahópinn vel. Það eru margir leikmenn í þessum hópi sem fóru áfram og spiluðu í meistaraflokki. Við erum í raun ótrúlega spenntir fyrir verkefninu og það verður gaman að fá að vinna aftur með ungum leikmönnum. Það er mikið tækifæri á Selfossi fyrir þessa brú úr unglingaflokki yfir í meistaraflokk og vonum við að við getum unnið verkefnið vel með Selfoss,“ segir Njörður.
Athugasemdir
banner