Napoli í viðræðum um Garnacho - Villa hafnaði tilboði West Ham í Duran - Vlahovic orðaður við Chelsea
   fös 25. október 2024 12:40
Elvar Geir Magnússon
Fallbaráttan
Lífsbaráttu laugardagur - Vestri með bestu spilin og von HK veik
Úr leik Vestra og HK fyrr á tímabilinu.
Úr leik Vestra og HK fyrr á tímabilinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Benedikt Warén.
Benedikt Warén.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Davíð Smári Lamude, þjálfari Vestra.
Davíð Smári Lamude, þjálfari Vestra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ómar Ingi Guðmundsson, þjálfari HK.
Ómar Ingi Guðmundsson, þjálfari HK.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Lokaumferð Bestu deildarinnar fer fram um helgina og skiljanlega fer nánast öll athygli á úrslitaleikinn á sunnudaginn. En það er ýmislegt fleira í húfi í lokaumferðinni, þar á meðal í fallbaráttunni en það mun ráðast hvort HK eða Vestri fari niður með Fylki.

Síðustu leikirnir í neðri hlutanum verða spilaðir klukkan 14 á morgun; Vestri fær fallið Fylkislið í heimsókn á meðan HK á leik gegn heitum KR-ingum. Bæði HK og Vestri eru með 25 stig en slæm markatala Kópavogsliðsins gerir það að verkum að það er í fallsæti.


Vestramenn í bílstjórasætinu
Markatalan gerir það að verkum að Vestri er með örlögin í sínum höndum. Ef liðið vinnur Fylki á Ísafirði verður liðið áfram í deild þeirra bestu á næsta ári. Árbæingar hafa að engu að keppa og hafa ekki unnið leik í neðri hlutanum.

Vestri vann þó hvorugan leikinn gegn Fylki fyrir tvískiptinguna, tapaði 3-2 í Árbænum og gerði markalaust jafntefli á Ísafirði.

Vængbrotnir og sjálfstraustslausir Fylkismenn
Fylkir ferðast til Ísafjarðar án nokkurra af sínum bestu leikmönnum. Arnór Breki Ásþórsson, Birkir Eyþórsson og Nikulás Val Gunnarsson taka út leikbann, Sigurbergur Áki Jörundsson verður lengi frá og þá er Ragnar Bragi Sveinsson fyrirliði frá vegna barnseignar og Benedikt Daríus Garðarsson að glíma við meiðsli.

Hjá Vestra verður Gunnar Jónas Hauksson í banni en liðið endurheimtir hinsvegar Elmar Atla Garðarsson fyrirliða, Fatai Gbadamosi og Ibrahima Balde en þeir voru í banni í tapinu gegn KA í síðustu umferð. Vestramenn þóttu andlausir og í þeim leik og virtust ekki hafa trú á verkefninu, eitthvað sem er ólíklegt að við sjáum á morgun.

Þjálfarinn fullur eldmóðs en andstæðingurinn erfiður
Það eitt og sér að HK eigi möguleika á að halda sæti sínu fyrir lokaumferðina telst ansi gott miðað við hrakspárnar fyrir mót þar sem talað var um liðið sem fallbyssufóður og allir spáðu þeim lóðrétt niður. Ómar Ingi Guðmundssson þjálfari liðsins hefur sýnt hvað í hann er spunnið og nú þarf HK að ná betri úrslitum en Vestri til að halda sæti sínu.

Sigurinn hádramatíski gegn Fram hlýtur að gefa HK-ingum byr undir báða vængi og sá eldmóður sem er greinilega í Ómari smita út frá sér. En því miður fyrir HK-inga gætu þeir fallið þrátt fyrir sigur, þeir þurfa að treysta á að Fylkismenn geri sér greiða.

Þá ætti verkefni HK að vera töluvert erfiðara en Vestra. HK leikur gegn KR á hlutlausum velli þar sem KR-völlurinn er kominn í vetrardvala en leikið verður á heimavelli Þróttar í Laugardalnum. Þeir mæta KR-ingum sem hafa verið á flottu skriði, með leikmenn sem eru æstir í að sýna Óskari Hrafni Þorvaldssyni það að þeir eigi að vera í stóru hlutverki á næsta tímabili.

   25.10.2024 11:45
Gulli Jóns spáir í lokaumferð Bestu deildarinnar

Gulli Jóns spáir öruggum sigri Vestra
Spámaður lokaumferðarinnar hér á Fótbolta.net er Gunnlaugur Jónsson en hann spáir því að Vestri vinni 4-0 sigur gegn Fylki. „Árbæjarliðið er fallið og ekki bætir úr skák að liðið mætir vestur vængbrotið til leiks og þeir keyra á vegg á Ísafirði," segir Gulli í spá sinni en að auki spáir hann því að KR vinni HK.

Þó líkurnar séu svo sannarlega ekki með HK þá er möguleikinn til staðar og margoft sýnt sig í boltanum að oft á tíðum fer ekki allt eftir bókinni góðu.

laugardagur 26. október
14:00 KR-HK (AVIS völlurinn)
14:00 Vestri-Fylkir (Kerecisvöllurinn)
Besta-deild karla - Neðri hluti
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    KA 27 10 7 10 44 - 48 -4 37
2.    KR 27 9 7 11 56 - 49 +7 34
3.    Fram 27 8 6 13 38 - 49 -11 30
4.    Vestri 27 6 7 14 32 - 53 -21 25
5.    HK 27 7 4 16 34 - 71 -37 25
6.    Fylkir 27 5 6 16 32 - 60 -28 21
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner