banner
   þri 26. janúar 2021 19:42
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Championship útgáfan af Gylfa"
Conor Hourihane.
Conor Hourihane.
Mynd: Getty Images
Guto Llewelyn, pistlahöfundur Wales Online, bindur miklar vonir um það að miðjumaðurinn Conor Hourihane muni reynast Swansea vel í baráttunni um að komast upp úr Championship-deildinni, næst efstu deild Englands.

Swansea fékk Hourihane lánaðan frá Aston Villa á dögunum. Hinn 29 ára gamli Hourihane vildi fara á lán til að spila meira og Dean Smith, stjóri Villa, varð við beiðni hans.

Llewelyn skrifaði pistil um komu Hourihane. Í pistlinum kemur hann inn á það að Írinn sé með svipaða eiginleika og Gylfi Þór Sigurðsson, fyrrum leikmaður Swansea, þó hann sé ekki jafngóður leikmaður.

„Hann er góður í að taka föst leikatriði og Swansea hefur vantað þannig leikmann í mörg ár. Síðasti leikmaður Swansea til að skora beint úr aukaspyrnu var Gylfi Þór Sigurðsson árið 2017," skrifar Llewelyn.

Gylfi var seldur frá Swansea til Everton fyrir 45 milljónir punda árið 2017. Gylfi reyndist Swansea mjög vel á tíma sínum þar.

„Ég skal segja ykkur það, það eru ákveðin líkindi á milli nýja lánsmannsins og íslensku Swansea-goðsagnarinnar. Sigurðsson breytti leikjum, hann var aldrei hræddur við að bretta upp ermar og leggja mikið á sig en það mikilvægasta var að hann átti augnablik sem unnu leiki."

„Hourihane býr ekki yfir þeim gæðum sem Sigurðsson hefur, en það eru margir svipaðir eiginleikar þarna og maðurinn frá County Cork gæti orðið Championship útgáfan af Sigurðsson."

Swansea er þessa stundina í öðru sæti Championship og það verður spennandi að sjá hvort Hourihane geti hjálpað þeim að komast upp.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner