Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mið 26. febrúar 2020 12:00
Fótbolti.net
Meistaraspáin - Hvað gerir Manchester City gegn Real?
Manchester City heimsækir Real Madrid.
Manchester City heimsækir Real Madrid.
Mynd: Getty Images
Juventus fer til Frakklands.
Juventus fer til Frakklands.
Mynd: Getty Images
Kristján Guðmundsson, þjálfari kvennaliðs Stjörnunnar, og Óli Stefán Flóventsson, þjálfari karlaliðs KA, mæta fréttamönnum Fótbolta.net í léttum leik í tengslum við útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar.

Spáð er um úrslit allra leikja í útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar. Fyrir hárréttar lokatölur fást 3 stig en 1 stig ef rétt tákn er á leiknum.

Kristján Guðmundsson

Real Madrid 1 - 0 Manchester City
Úrslit hjá Real Madrid undanfarið hafa ekki verið neitt sérstök og bras á uppstillingunni hjá þeim. Það mun þó ekki hafa nein áhrif þegar kemur að heimaleik í Meistaradeildinni. Verður spennandi að sjá hvernig byrjunarlið þeirra mun lita út í kvöld. City með alla pressuna á sér um að vinna keppnina í ár vonast til að Sterling nái að hrista af sér meiðslin. Það mun þó ekki duga og Real vinnur í Madrid.

Lyon 0 - 2 Juventus
Of mörg forföll af byrjunarliðsmönnum hjá Lyon í þessum leik og þeir breyta líklega um leikkerfi til að eiga einhverja möguleika gegn Juve. Hjá Juventus sér ekki högg á vatni þó vanti einn til tvo því hópurinn þeirra er ógnarsterkur. Mikil samheldni einkennir leikmannahóp Juventus og þeir vinna þennan leik örugglega með tveimur mörkum.

Óli Stefán Flóventsson

Real Madrid 3 - 2 Manchester City
Þessi viðureign verður rosaleg. Real Madrid hefur aðeins gefið eftir í síðustu leikjum en við erum að tala um allt aðra leikmynd núna. Meistaradeildin á móti liði sem Guardiola er að stýra er nóg til að Real verði uppá sitt allra besta. Ég held að Real Madrid vinni í miklum markaleik 3-2. Benzema skorar tvö og Ramos eitt eftir horn. Aguero og De Bruyne skora fyrir City.

Lyon 0 - 2 Juventus
Það er eitthvað sem segir mér að Juventus fari langt í þessu móti. Þeir taka Lyon á erfiðum útivelli 0-2. Ronaldo setur eitt úr víti og Dybala bætir við marki stuttu eftir að hann kemur inn sem varamaður.

Fótbolti.net - Ívan Guðjón Baldursson

Real Madrid 1 - 3 Manchester City
Þetta virðist fullkomið tímabil fyrir City til að vinna Meistaradeildina. Úrvalsdeildartitillinn er farinn og félagið gæti verið á leið í bann frá Evrópukeppnum. Kjörið tækifæri fyrir leikmenn til að svara fyrir sig á vellinum og vinna titilinn sem vantar í bikarskápinn á Etihad.

Lyon 1 - 2 Juventus
Áhugaverð viðureign þar sem bæði lið munu mæta varkár til leiks. Juve með meiri gæði í sínu liði, heimamenn munu sakna Memphis.

Staðan í heildarkeppninni:
Fótbolti.net - 5 stig
Kristján Guðmundsson - 3 stig
Óli Stefán Flóventsson - 2 stig
Athugasemdir
banner
banner