Bakvörðurinn Ástbjörn Þórðarson er á leið til FH. Keflavík er búið að samþykkja Fimleikafélagsins í bakvörðinn öfluga, en þetta kom fram hér á Fótbolta.net í gær.
Ástbjörn er 22 ára og getur leyst margar stöður þó að hann spili oftast sem bakvörður og þá hægra megin. Á síðasta tímabili spilaði hann alla 22 deildarleikina með Keflavík og skoraði þrjú mörk.
Elvar Geir Magnússon sagði frá því í útvarpsþættinum Fótbolta.net í dag hvert kaupverðið væri.
„Þeir (Keflavík) enda uppi - samkvæmt mínum heimildum - með einhverjar 5-6 milljónir fyrir Ástbjörn, sem er samningslaus eftir tímabilið," sagði Elvar.
„Vá, manstu þegar Þórarinn Ingi var keyptur á 5 milljónir eða eitthvað, til FH? Þá hafði enginn séð þannig tölur áður. Núna er hægri bakvörður úr Keflavík mættur á sömu tölu," sagði Tómas Þór Þórðarson. „Hvað á Keflavík að gera? Þeir eru að missa einn sinn albesta leikmann."
„Þeir þurfa að finna einhvern leikmann fyrir hann og það mun kosta. Vel gert hjá þeim að standa í lappirnar," sagði Tómas.
Athugasemdir