Man City leiðir kapphlaupið um Musiala - Man Utd hefur áhuga á Toney - Arsenal endurskoðar áætlanir
banner
   mán 26. febrúar 2024 17:49
Ívan Guðjón Baldursson
27. sigurinn í röð hjá Al-Hilal - Messi bjargaði stigi undir lokin
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Sádi-arabíska félagið Al-Hilal er að eiga magnað tímabil enda með mikið af stórstjörnum innanborðs.

Al-Hilal heimsótti Steven Gerrard og lærisveina hans í Al-Ettifaq í dag og vann tveggja marka sigur þar sem bæði mörkin komu í fyrri hálfleik.

Sergej Milinkovic-Savic skoraði fyrra markið eftir hornspyrnu frá Rúben Neves og tvöfaldaði Salem Al-Dawsari forystuna í uppbótartíma fyrri hálfleiks eftir frábært einstaklingsframtak, eftir að hafa fengið sendingu frá Aleksandar Mitrovic.

Neymar er enn fjarri vegna meiðsla en Renan Lodi, Bono, Kalidou Koulibaly og Malcom voru allir í byrjunarliðinu hjá Al-Hilal.

Seko Fofana, Georginio Wijnaldum, Demarai Gray, Moussa Dembélé og Karl Toko Ekambi voru meðal byrjunarliðsmanna Al-Ettifaq í nokkuð jöfnum leik, þar sem færanýting gestanna var betri.

Al-Hilal trónir á toppi sádi-arabísku deildarinnar með sjö stiga forystu, enda er liðið að eiga magnað tímabil undir stjórn Jorge Jesus og er enn taplaust eftir 21 umferð. Al-Ettifaq siglir lygnan sjó um miðja deild.

Lærisveinar Jesus eru búnir að vinna alla leiki í öllum keppnum frá 25. september og var sigurinn gegn Al-Ettifaq sá 27. í röð, ef æfingaleikir gegn Al-Nassr, Al-Gharafa og Inter Miami eru taldir með.

Lionel Messi lék þá allan leikinn í annarri umferð deildartímabilsins í norður-amerísku MLS deildinni. Inter Miami heimsótti þar Los Angeles Galaxy og voru gestirnir frá Miami stálheppnir að tapa ekki leiknum.

Riqui Puig klúðraði vítaspyrnu fyrir L.A. Galaxy í fyrri hálfleik og var staðan markalaus í leikhlé þrátt fyrir gífurlega mikla yfirburði heimamanna, þar sem Drake Callender átti stórleik í marki Inter.

Lionel Messi, Luis Suarez, Sergio Busquets og Jordi Alba voru allir í byrjunarliði Inter sem hélt boltanum vel en átti erfitt með að skapa sér færi. Þeir réðu ekki við kröftugar skyndisóknir heimamanna en Callender bjargaði sínum mönnum trekk í trekk, allt þar til á 75. mínútu þegar Dejan Joveljic tókst að setja boltann í netið og taka forystuna fyrir heimamenn.

Gömlu kempurnar í Inter gáfust þó ekki upp og voru leikmanni fleiri á lokakaflanum, eftir að Marco Delgado fékk seina gula spjaldið sitt.

Þegar komið var í uppbótartíma tókst þeim að gera jöfnunarmark, þar sem Alba lagði upp fyrir Messi eins og hefur oft gerst áður í fótboltasögunni.

Al-Ettifaq 0 - 2 Al-Hilal
0-1 Sergej Milinkovic-Savic ('39)
0-2 Salem Al-Dawsari ('45+5)

L.A. Galaxy 1 - 1 Inter Miami
0-0 Riqui Puig ('13, misnotað víti)
1-0 Dejan Joveljic ('75)
1-1 Lionel Messi ('92)
Rautt spjald: Marco Delgado, LA Galaxy ('87)
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner