Freyr Alexandersson, þjálfari Lyngby, viðurkennir að hann og félagið séu með augu á Sævari Atla Magnússyni, fyrirliða Leiknis í Breiðholti.
Sævar Atli hefur verið magnaður með Leikni í Pepsi Max-deildinni í sumar. Sævar, sem varð 21 árs í síðasta mánuði, er búinn að skora tíu mörk í tólf leikjum á sínu fyrsta heila tímabili í efstu deild.
Freyr þekkir Sævar. Hann gaf honum fyrsta keppnisleikinn í meistaraflokki fyrir sex árum síðan, sem þjálfari Leiknis.
„Við höfum augu á honum. Ég þekki leikmanninn og hann hefur staðið sig vel. Eins og staðan er núna, þá er ekki líklegt að hann komi til Lyngby," segir Freyr en Leiknir ætlar sér að halda leikmanninum.
„Árið 2015 æfði hann með okkur seinni part sumars og spilaði einn leik. Hann var mjög ungur. Ég þjálfaði hann ekkert í yngri flokkunum en hann var örugglega hjá mér í knattspyrnuskólanum sem sex, sjö ára krakki. Hann var alltaf þarna og hefur verið út á Leiknisvelli síðan hann var lítill. Ég þekki strákinn vel og hans fjölskyldu. Ég er rosalega ánægður með hans framgöngu og ég veit að hann getur náð langt. Ég er mjög hrifinn af honum sem leikmanni og manneskju."
Sævar er búinn að semja við Breiðablik fyrir næstu leiktíð en Leiknir hefur kostinn á að selja hann erlendis áður en hann fer í Breiðablik. Það þarf ansi gott tilboð að berast svo Leiknir selji sinn besta leikmann.
„Ég er í engum vafa um að Sævar getur staðið sig vel í Skandinavíu. Það getur tekið tíma - eins og gengur og gerist - að aðlagast. Ég er í engum vafa um að hann getur staðið sig vel í Skandinavíu og vonandi fær hann einhvern tímann tækifæri til að spreyta sig þar. Næst á dagskrá hjá honum er að klára tímabilið með Leikni og svo tekur Breiðablik við í janúar. Hann á eftir að standa sig vel þar," segir Freyr.
Sjá einnig:
Freysi byrjar vel: Nýt góðs af því sem Óli Kristjáns hefur gert
Athugasemdir