Alexis Mac Allister, leikmaður Liverpool og argentínska landsliðsins, viðurkenndi það að hafa næstum sofnað á taktískum fundi Jürgen Klopp fyrir leikinn gegn Manchester City.
Leikmenn beggja liða fengu lítinn tíma til að undirbúa sig fyrir stórleikinn, sem fór fram klukkan 12:30 í gær.
Bæði félög eru með marga leikmenn frá Suður-Ameríku en Brasilía og Argentína mættust aðfararnótt fimmtudags og var síðan flogið til Bretlandseyja um morguninn.
Mac Allister viðurkennir að það hafi verið þreyta í honum þegar Jürgen Klopp fór yfir lið Manchester City á taktískum fundi.
„Í allri hreinskilni þá er ótrúlega erfitt að spila á þennan hátt. Í gær fórum við á fund þar sem við ræddum Manchester City og hvernig við vildum spila og ég átti bara erfitt með að halda augunum opnum,“ sagði Mac Allister við LFCTV.
„Þetta er erfitt. Flugþreyta og löng ferð, en þannig er það bara. Við elskum að spila fótbolta, viljum vinna og þess vegna gerðum við okkar besta. Þetta var erfiður leikur fyrir okkur alveg eins og við var að búast. Man City er með gott lið en mér fannst úrslitin sanngjörn,“ sagði hann í lokin, en leiknum lauk með 1-1 jafntefli þar sem Trent Alexander-Arnold gerði jöfnunarmarkið tíu mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma.
Athugasemdir