Bruno Fernandes, fyrirliði Manchester United, segist finna til með leikmönnum Everton og stöðu þeirra í deildinni.
Manchester United vann 3-0 sigur á Everton á Goodison Park í kvöld, en Everton-liðið skapaði sér haug af færum í leiknum og féll ekkert með þeim, svipað og utan vallar.
10 stig voru dregin af Everton vegna brota á fjármálareglum deildarinnar. Staðan er því þannig að liðið situr í næst neðsta sæti með aðeins 4 stig.
„Þetta var mikilvægt fyrir okkur. Við vitum hvað Everton hefur verið að ganga í gegnum og finnst mér þetta ekki sanngjarnt gagnvart leikmönnunum. Það er langt síðan þetta gerðist og þeir eru að þjást fyrir eitthvað sem þeir áttu engan þátt í,“ sagði Bruno eftir leikinn.
„Liðið mitt kom hingað í dag til að vinna og gera sitt besta. Mér fannst við geta haldið aðeins betur í boltann í fyrri hálfleiknum, en þetta var samt gott dagsverk.“
Hann átti þá varla til lýsingarorðin til að lýsa marki Alejandro Garnacho.
„Magnað. Þetta var eitthvað stórkostlegt og á í raun engin orð til að lýsa þessu. Þetta var ekki úr þessum heimi og mjög sérstakt mark frá sérstökum strák. Ég býst samt við meiru frá honum en við erum vel meðvitaðir um hvað hann getur í fótbolta.“
Annar táningur, Kobbie Mainoo, byrjaði sinn fyrsta deildarleik með United og fékk hann einnig hrós frá fyrirliðanum.
„Frábær leikur og maður leiksins að mér fannst. Stórkostleg frammistaða og öruggur á boltann. Hann stígur aldrei feilspor og er alltaf klár í að hjálpa. Hann er með of mikil gæði miðað við aldur og sér hlutina áður en þeir gerast. Hann gerði margt gott í dag,“ sagði hann ennfremur.
Rashford þurfti á þessu að halda
Það vakti athygli að Marcus Rashford var sendur á vítapunktinn snemma í síðari hálfleiknum. Bruno er vítaskytta liðsins, en fyrirliðinn sá að Englendingurinn þurfti á þessu að halda.
Hann hafði ekki skorað í síðustu tólf leikjum liðsins og vildi auka sjálfstraust hans.
„Ég held að hann hafi þurft á þessu marki að halda. Ég var viss um að hann myndi skora því hann er ein af vítaskyttum liðsins og mér fannst þetta augnablikið hans. Ég er ánægður að hann skoraði og mun þetta auka sjálfstraustið. Eftir markið gat hann keyrt á hvaða leikmann sem er og ógnað Everton,“ sagði hann í lokin.
Athugasemdir