Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 27. maí 2022 21:10
Ívan Guðjón Baldursson
Lengjudeildin: Þægilegt fyrir Selfoss og HK
Lengjudeildin
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Selfoss er á toppi Lengjudeildarinnar eftir flottan heimasigur gegn Þrótti Vogum þar sem Gonzalo Zamorano lék á alls oddi.


Fyrri hálfleikurinn var líflegur þar sem bæði lið fengu góð færi en heimamenn voru sterkari.

Gonzalo kom Selfyssingum yfir eftir frábæra sendingu frá Aroni Einarssyni en Vogamenn voru nálægt því að jafna skömmu fyrir leikhlé. Stefán Þór Ágústsson varði þá skalla frá Hauki Leifi Eiríkssyni meistaralega og staðan 1-0 í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn fór rólega af stað en heimamenn tvöfölduðu forystuna þegar Gonzalo skoraði sitt annað mark. Í þetta skiptið skoraði hann eftir stórkostlegt samspil við Hrvoje Tokic og Gary Martin.

Gestirnir úr Vogum blésu til sóknar eftir að hafa fengið annað mark á sig en Selfyssingar voru snöggir að refsa með marki úr skyndisókn. Í þetta sinn skoraði Gary eftir fyrirgjöf frá Gonzalo.

Alexander Clive Vokes gerði að lokum fjórða og síðasta mark heimamanna eftir undirbúning frá Hrvoje Tokic. Alexander var nýkominn inn af bekknum þegar hann skoraði.

Selfoss er á toppinum með tíu stig eftir fjórar umferðir á meðan Þróttarar eru aðeins með eitt stig.

Sjáðu textalýsinguna.

Selfoss 4 - 0 Þróttur V.
1-0 Gonzalo Zamorano ('15)
2-0 Gonzalo Zamorano ('64)
3-0 Gary Martin ('75)
4-0 Alexander Clive Vokes ('90)

HK tók þá á móti Aftureldingu í nokkuð fjörugum leik þar sem var nóg af færum.

HK byrjaði betur og komst í tvö dauðafæri í fyrri hálfleik áður en Stefán Ingi Sigurðarson skoraði eftir klaufaleg varnarmistök Georgs Bjarnasonar í Aftureldingu.

Heimamenn í HK voru talsvert betri en Esteve Pena Albons átti stórleik á milli stanga Mosfellinga og varði nokkrum sinnum meistaralega í kvöld.

Valgeir Valgeirsson tvöfaldaði forystu HK og innsiglaði sigurinn með marki á 77. mínútu og niðurstaðan sanngjarn 2-0 sigur.

Sigurður Gísli Bond Snorrason var líflegur í liði Aftureldingar og komst nálægt því að minnka muninn með flottri aukaspyrnu í uppbótartíma.

HK er þá komið með sex stig eftir fjórar umferðir á meðan Afturelding situr eftir með tvö stig.

Sjáðu textalýsinguna.

HK 2 - 0 Afturelding
1-0 Stefán Ingi Sigurðarson ('45)
2-0 Valgeir Valgeirsson ('77)


Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner